Við fyrstu sýn virðist ferðaskrifstofan Úrval Útsýn vera að gera allt rétt. Fjöldi ferða til spennandi sólarstaða í boði á sértilboðssíðu ferðaskrifstofunnar. En eins og alltaf hangir dálítið vafasamt á spýtu.

Ertu virkilega á þeirri skoðun að þessi maður eigi að græða fullt af peningum á nýjan leik?

Samkvæmt nýlegu viðtali Viðskiptablaðsins við framkvæmdastjóra Úrval Útsýn gengur reksturinn framar vonum. Landinn á viðskipti við ferðaskrifstofuna fyrir milljarða króna árlega. Sem segir auðvitað sitt um landann því eigandinn er hinn súper-vafasami Pálmi Haraldsson sem gerði garðinn frægan sem vafasamur stórvesír í aðdraganda Hrunsins eftir að hafa verið uppvís að stórfelldu svindli sem forstjóri grænmetismarkaðar. Um að gera að að fylla hans vasa af peningum á nýjan leik.

Burtséð frá gullfiskaminni landans þá er eitt og annað dulítið undarlegt við ýmis þau megatilboð sem Úrval Útsýn auglýsir þessa stundina. Skoðum bara eitt tilfelli:

Hér til hliðar gefur að líta fjögur af alls tólf sértilboðum Úrval Útsýn þegar þetta er skrifað. Þeir kalla þetta tilboð vikunnar. So far, so gúdd.

En gagnrýn augu rekast strax á þá staðreynd að auglýst verð miðast við tvo fullorðna og annaðhvort eitt eða tvö börn undir ellefu ára aldri og allar tilboðsferðirnar gilda seinnihluta janúar eða byrjun febrúar.

Þá er fyrsta spurning hvers lags foreldrar rífa börn sín úr skóla í sjö til fimmtán daga til dúllerís undir sólinni á Kanarí þegar skólastarf er nýhafið eftir gott jólafrí. Líklega aðeins foreldrum sem er slétt sama um börn sín og telja víst að tveggja vikna pása hafi engin áhrif á menntun barna sinna.

Kíkjum sérstaklega á tilboð númer fjögur. Kanaríferð í tvær vikur frá 30. janúar. Verð per haus miðað við tvo fullorðna og tvö börn undir ellefu ára aldri 203.163 krónur á góðu hóteli með öllu inniföldu. Samtals kostnaður per fjölskyldu 812.652 krónur.

Hljóma rúmar 800 þúsund krónur súpervel fyrir skitnar tvær vikur á Kanarí á lágannatíma? Hvað ef við skoðum hvað kostnaðurinn er næstu tvær vikur á eftir þegar ekkert er sértilboðið? Þá kemur í ljós að sama fjölskylda þarf að borga alls 973.950 krónur fyrir pakkann.

Hólímóli, það hljómar eins og flottur sparnaður ekki satt?

Kíkjum þó augnablik á kostnaðinn ef fjölskyldan græjar þetta alfarið sjálf. Familía sem flýgur með Wow Air til Kanarí á umræddu tímabili greiðir alls 237.364 í flugfargjöld með tösku og handfarangur fyrir alla. Ef við skoðum fimmfaldan heimsmeistara í hótelbókunum, okkar eigin bókunarvef, kemur í ljós að gisting á umræddu hóteli með öllu inniföldu fæst fyrir 497.906 krónur.

Ef við leggjum klabbið saman er þá útkoman sú að heildarkostnaður fyrir fjögurra manna fjölskyldu með því að gera hlutina sjálf með litlum fyrirvara reynist vera 735.270 krónur. Með engum fyrirvara og bókunum á réttum stöðum tekst þessari sömu fjögurra manna fjölskyldu að negla tveggja vikna dúllerí á Kanarí á 12 prósent lægra verði en umrætt „sértilboð“ Úrval Útsýn.

Ætlarðu að láta fífla þig lengi í viðbót…