Einu gildir hversu ungur eða gamall maður er, rúntur um Berlín í Þýskalandi í uppgerðum Trabant er hrein ávísun á skemmtilegheit.

Berlínarrúntur í Trabant er góð skemmtun
Berlínarrúntur í Trabant er góð skemmtun

Slíkar ferðir njóta vaxandi vinsælda en tæp fimmtán ár eru síðan fyrsta bílaleigan tók til starfa sem aðeins býður til leigu gamla, misgóða austantjalds Trabant af öllum stærðum og gerðum þó reyndar þeir séu allir meira og minna eins lélegir.

Er hvort heldur sem er hægt að setjast í óþægileg sætin og fá rúnt um borgina með fróðum bílstjóra ellegar setjast sjálfur undir stýri og gera sér í hugarlund hvernig lífið var í fyrrum Austur-Þýskalandi þegar Trabant var nánast eini bíllinn sem fólk gat eignast og þá aðeins gegnum sambönd við háttsetta.

Í dag eru allnokkrir aðilar að bjóða slíkar ferðir og getur ritstjórn Fararheill.is mælt með að láta aka sér um því það er ansi margt í borginni sem aðkomufólk hefur enga hugmynd um en fróður bílstjóri eða leiðsögumaður þekkir í þaula.

Framboð af slíkum bílum er töluvert og til bæði sem hefðbundnir Trabantar eða sem blæjubílar en hvernig sem útlitið er menga þeir eins og bresk kolaverksmiðja á átjándu öld og sætin fá engan veginn verðlaun fyrir þægindi af neinum toga.

Nokkur fyrirtækjanna sem upp á slíkt bjóða og njóta trausts eru Trabi-Safari, Berlin&bike og Trabant-Berlin.

Leave a Reply