Árið 2012 gátu allir farþegar Icelandair tekið með sér 15 kílóa handfarangur, eina alvöru 30 kílóa ferðatösku og þurftu aðeins að greiða rúman fimm þúsund kall, á verðlagi þess árs, til að taka TVÆR 30 kílóa töskur. Átta árum síðar er handfarangur takmarkaður við 10 kíló og lágmarks töskugjald fram og aftur litlar 7.700 krónur!!!

Svo virðist sem Icelandair ætli að láta viðskiptavini sína borga duglega fyrir hörmungarrekstur um áraraðir. Gangi þeim vel með það 🙂

Það, gott fólk, er verðbólga á pari við það sem gerist í þriðja heims ríkinu Zimbabwe. Það er jú ekki eins og Icelandair sé ekki að fljúga nákvæmlega sömu rellum og fyrirtækið gerði árið 2012. Sömu rellur en öllu þreyttari en okkur gert að greiða mörg þúsund krónur meira fyrir sömu vöruna.

Hvað sem verður um fyrirtækið nú þegar hlutabréfaútboð stendur fyrir dyrum skal ósagt látið. En það er lágmark, fyrir viðskiptavini og hugsanlega fjárfesta, að forráðamenn viti hvort flugfélagið á að vera lággjaldaflugfélag eða ekki.

Slíkt farangursgjald hjá lággjaldaflugfélagi eðlilegt en þá fæst líka flugið sjálft yfirleitt á sex til 15 þúsund krónur innan Evrópu með smá fyrirvara.

Sem er dálítið fjarri þeim flugfargjöldum sem Icelandair otar yfirleitt að okkur. Slíkt þýðir líka að sífellt fleiri sækja bara annað með viðskipti sín og sífellt minni bisness fyrir þetta flugfélag sem veit ekkert hvað það á að vera.