Löngum fór slæmt orð af Hamborg hinni þýsku. Skítug og grá hafnarborg sem þrátt fyrir langan aldur gat aðeins státað sig af því að hafa komið Bítlunum á kortið, eiga eitt eldrauðasta rauða hverfi Evrópu og einhverju stærsta hafnarsvæði heims.

Hvort sem það var rétt eður ei þá dylst engum sem heimsækir Hamborg þessi dægrin að hér hefur verið gert stórátak til að gera borgina meira aðlaðandi, hvort sem er fyrir íbúana sjálfa eða ferðafólk. Því ferli ekki lokið því borgin er enn leiðinlega grá yfirlits, og vondur fnykur finnst annars lagið í miðborginni, en Hamborg er snöggtum vænlegri kostur til heimsóknar nú en verið hefur í langan tíma.

Til Hamborgar hefur beint flug verið í boði héðan frá Íslandi reglulega og verður að líkindum áfram. Sjálfsagt að bregða undir sig betri fætinum og spássera hér í tvo til þrjá daga sem dugar til að skoða allt þetta markverðasta sem finnst í Hamborg án þess að leiði sæki að. Það eru í öllu falli fimm staðir sem þú VERÐUR að skoða ef þú kemur til með að eyða tíma hér 🙂

Ráðhúsið

Það finnast allnokkrar stórmagnaðar byggingar í Hamborg en fremst jafningja er efalítið ráðhús borgarinnar, Rathaus, sem heitir fullu nafni Ráðhús hinnar frjálsu Hansaborgar Hamborgar og er eðlilega staðsett miðsvæðis í gamla bænum, altstadt. Byggingin sjálf er meistaraverk og lítur út fyrir að vera frá miðöldum þegar raunin er að húsið er „aðeins“ rétt rúmlega hundrað ára gamalt. Þetta risavaxna hús var byggt í endurreisnarstíl og marga hringina má ganga um það og alltaf sjá eitthvað nýtt. Húsið hýsir ekki aðeins borgaryfirvöld heldur einnig aðsetur þingmanna héraðsins og annarra háttsettra embættismanna. Húsið má skoða flesta daga ársins í fylgd leiðsögumanns og sé mið tekið af því að hér eru hvorki fleiri né færri en 647 herbergi er gefið að ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós. Fyrir framan ráðhúsið er svo auðvitað Ráðhústorgið, Rathausmarkt, en þar eru uppákomur algengar allan ársins hring.

PS: Við suðurenda ráðhússins finnur þú inngang að hreint ágætum veitingastað, Parlament, sem einnig býður upp á meiri skemmtun þegar kvölda tekur en veitingastaðir gera almennt 🙂

Lendingarbryggjan

Lendingarbryggjan er herfileg þýðing okkar hér á þýska orðinu landungsbrücken sem er nafn rúmlega 700 metra langrar flotbryggju sem teygir sig nánast alveg frá gamla miðbænum og alla leið til Reeperbahn og Fischmarkt til vesturs. Það er þó ekki bryggan per se sem er merkileg ef lengdin er frá talin, heldur það sem hér fer fram. Héðan sigla bátar af ýmsum toga með ferðafólk hingað og þangað í skemmri og lengri túra og hér krökkt af veitingastöðum og börum til að stytta stundir ef bíða þarf eftir fari. Það er líka hér rétt hjá sem finna má hinn eina sanna fiskmarkað borgarinnar, ekki rugla þó fischmarkt saman við Fischmarkt sem er hverfisheiti :). Fyrir alla með áhuga á hernaði er þjóðráð að smella sér um borð í kafbátinn U-434. Ljúft væri nú ef það væri þýskur kafbátur úr Seinni heimsstyrjöldinni en Þjóðverjar eru felmtri slegnir yfir öllu því dæmi og því er kafbáturinn atarna rússneskur og aðeins 40 ára gamall. Hér líka liggur við flotbryggju seglskútan Rickmer Rickmers sem nú er safn og við hlið þess má finna birgðaskipið Cap San Diego sem einnig hefur verið breytt í safn. Síðast en ekki síst finnst hér Alter Elbtunnel sem er göng undir Saxelfi yfir til Steinwerder svæðisins, svona ef þér finnst bátstúr þreyttur pakki. Göngin þóttu stórafrek þegar þau voru byggð árið 1911 og sökum aldurs er aðgengi takmarkað fyrir bílaumferð þó gangandi vegfarendur geti labbað á milli alla daga ársins.

Elbphilharmonie

Reykjavík hefur Hallgrímskirkju, Sidney á Óperuhúsið, Nashville á Elvis og Hamborg á Elbphilharmonie. Jú, hljómar ekki sexí en það gildir jú um allt þýska tungumálið 🙂  Við ætlum ekki að reyna að þýða Elbphilharmonie því það mun alltaf líta illa út. Elb merkir hér ánna Saxelfi og harmonie á í þessu tilfelli við um sinfoníuhljómsveit Hamborgar sem á sitt aðsetur í þessu mikla húsi. Saxelfarsimfónía hljómar reyndar ekkert illa en við látum okkur vitrara fólk þýða heitið svo vel sé. Það er í öllu falli kjánalegt að vappa um Hamborg og reka ekki tánna inn í þetta merkilega mannvirki sem sést víða að í borginni og mun að líkindum verða tákn borgarinnar eftirleiðis. Húsið er að hluta til lúxushótel þar sem þú borgar fótlegg, nýru og heila fyrir eina nótt en efsti hlutinn er að stærstum hluta eitt magnaðasta tónleikahús veraldar. Það getur ritstjórn staðfest eftir að hafa setið einn ljúfan konsert með sinfóníuhljómsveit Hamborgar í stóra sal hússins. Tónleikasalirnir eru tveir og nánast eitthvað að gerast hér í hverri einustu viku. Hér finnst líka svokallað „plaza“ sem þýðir torg á engilsaxnesku en merkir aðeins stóran opinn sal fyrir gesti og gangandi. Héðan hægt að rölta út á svalir sem ná hringinn kringum húsið og þaðan má sjá Hamborg alla í allri sinni dýrð í allar áttir. Hér líka kaffihús svona ef þú vilt staldra við og auðvitað minjagripaverslun ef þú átt peninga til að henda í rugl. Ókeypis er inn að skoða fyrir ferðafólk en ef þú vilt upplifa tónleika ef betra að bóka miða með góðum fyrirvara. Það er þess virði 🙂

Mikjálskirkja

Það er svipaður skortur á kirkjum í Hamborg og það er á beikoni í Bandaríkjunum. Nærsýn manneskja getur næsta auðveldlega talið eina sex til átta kirkjuturna án þess að setja upp gleraugun af góðum útsýnisstað. Stöku kirkjur eru þó ekkert annað en turninn þegar nær dregur, eins og til dæmis hin magnaða Nikulásarkirkja sem var um tíma ein hæsta kirkja veraldar áður en hún var sprengd í tætlur í Seinni heimsstyrjöldinni. Turninn stendur þó enn að mestu og auðvelt hér að ímynda sér hryllinginn þegar sprengjum rigndi yfir þessa þýsku borg fyrir tæpum áttatíu árum síðan. Ein kirkja sem virðist hafa sloppið ótrúlega vel, en gerði ekki og hefur verið endurbyggð að stórum hluta, er hin magnaða kirkja heilags Mikjáls sem stendur við hið ekki svo kaldhæðnislega Englisher Planke. Hauptkirche Sankt Michaelis er sýnu fegurst allra kirkja í borginni og það ekki aðeins utanfrá. Hvítur marmari prýðir hólf og gólf innandyra og þar hægt að hvíla lúin bein án þess að greiða aur til eða frá. Það þarf hins vegar að henda út 800 krónum eða svo til að fá að klífa turn kirkjunnar og því mælum við með því að frátöldu Elbphilmarmonie finnst hvergi betra útsýni yfir Hamborg en út klukkuturni Mikjálskirkju. Engar áhyggjur ef lofthræðsla er vandamál. Þá er þjóðráð að skrölta sér niður í kjallara kirkjunnar þar sem má, gegn greiðslu, finna eitt stærsta og merkasta grafhýsi Evrópu. Það líka fullkomlega peninganna virði ef þú spyrð okkur en sjón er sögu ríkari.

Reeperbahn

Rauð hverfi finnast í nánast öllum borgum heims þó borgaryfirvöld í stöku borgum kjósi að kalla svæðin annað en það. Hér um að ræða hverfi eða götur þar sem næturklúbbar, vafasamir eður ei, plús vændisþjónusta bætist ofan á þessar hefbundnu krár, knæpur og tyllistaði sem fólk sækir þegar lyfta skal sér upp. Ritstjórn veit af fólki sem dvalið hefur í Hamborg vikutíma og þorði aldrei fyrir sitt litla líf að kíkja á Reeperbahn. Það alvarleg mistök því Reeperbahn og nærliggjandi götur eru fyrst og fremst skemmtun út í eitt. Bítlarnir geta jú ekki hafa haft rangt fyrir sér en það var hér í þessu „illræmda“ hverfi sem Bítlarnir frá Liverpool náðu fyrst athygli á sínum tíma. Fáir aðrir en sóðalegur knæpueigandi í Hamborg var reiðubúinn að gefa Bítlunum tækifæri til að spila fyrir fólk áður en frægðin knúði dyra. Allir þekkja eftirleikinn. Vissulega eru hér vændiskonur í tonnavís og vissulega eru hér barir þangað sem enginn skyldi halda til eftir miðnætti. En hér líka eru fyrirtaks skyndibitastaðir, eðalfínir dansstaðir og diskótek og svona fyrir þá kúltíveruðu má líka finna hefðbundin leik- og kvikmyndahús í hverfinu. Þetta er ekki allt hnignun og viðbjóður út í eitt. Þvert á móti eiginlega; hingað sækja heimamenn sjálfir reglulega til að lyfta sér upp með dansi og djammi þó auðvitað fari langmest fyrir erlendu fólki og þá helst blindfullum Bretum. Hér meira að segja jólamarkaður árlega þó sá sé vissulega oggupons öðruvísi en annars staðar í landinu 🙂