Fimm stjörnu vetrarfrí í lúxusstíl um tíu daga skeið í febrúar fyrir 135 þúsund á mann miðað við tvo saman? Á einu flottasta Hilton hóteli veraldar. Með hálfu fæði, öllum ferðum og golfvöll í grenndinni…

Jú, ætli þetta dugi ekki. Hilton Vilamoura hótelið.
Jú, ætli þetta dugi ekki. Hilton Vilamoura hótelið.

Hljómar ekki illa eða hvað? Allra best að þetta er raunverulega í boði þessa stundina með smá tilfæringum af þinni hálfu.

Ferðamiðillinn breski Secret Escapes er að selja núna vetrarpakka til Algarve í Portúgal. Einn pakki sérstaklega vekur þar athygli fyrir þær sakir að þar er dvalið tíu nætur á Hilton Vilamoura as Cascadas í Vilamoura. Það hótel fékk gullverðlaun sem besta hótelið í Portúgal árið 2013 samkvæmt World Travel Awards svo ekki er um neina holu að ræða.

Pakkinn frá Gatwick í Bretlandi kostar lægst 119 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman á völdum dagsetningum í febrúar, apríl og maí þegar þetta er skrifað. Góðu fréttirnar þær að með Wow Air eða easyJet kemst fólk til Gatwick og heim aftur fyrir 20 þúsund kallinn plús klink til eða frá.

Tvinni fólk þetta tvennt saman má því alveg njóta vetrarsólar, og vetrargolfs, á botnverði á næstunni eða fyrir litlar 140 þúsund krónur á mann eða svo. 280 þúsund á par eða hjón.

Það er með ódýrustu fimm stjörnu pökkum sem þú finnur nokkurs staðar. Til samanburðar kostar ódýrasta vika á fimm stjörnu hóteli á Maspalomas á Kanarí gegnum Gaman ferðir tæplega 380 þúsund krónur í sama mánuði. Mun styttri ferð en mun dýrari líka en reyndar í beinu flugi.

Fyrir þá sem yppta öxlum og hnussa. Það sé bara kuldi og vosbúð á suðurströnd Portúgal yfir vetrartímann fyrir dúllerís ferðir, má kannski nefna að meðalhitastig á Algarve í febrúar eru 13 gráður, fimmtán gráður í mars og sextán í apríl. Sem er nokkuð á pari við bestu sumarhita á Íslandi.

Allt um þetta hér.