Hélt ég væri að tryggja fjölskyldunni bestu kjör með því að bóka eldsnemma árs og njóta sérstaks bókunarafsláttar. Svo rekst ég á enn betri tilboð þegar fram líða stundir og fæ ekkert fyrir minn snúð.

Fjölda tilboða að finna á vef Úrval Útsýn.
Fjölda tilboða að finna á vef Úrval Útsýn.

Svo segir einn viðskiptavinur Heimsferða sem er ósáttur við að horfa upp á mun ríflegri afslátt á tilteknum sólarpakka hjá ferðaskrifstofunni en í boði var þegar Heimsferðir auglýstu sérstakan bókunarafslátt fyrir alla þá sem negldu ferðir sínar snemma árs.

Sólþyrstir eru væntanlega flestir annaðhvort búnir að bóka sumarferðir sínar eða í þann mund en fátt virðist nú liggja á því enn dælast út sólartilboð frá ferðaskrifstofunum flestum sem er töluverð breyting frá því sem verið hefur. Fararheill greindi frá þessu fyrst fyrir rúmum mánuði síðan en enn þann dag í dag auglýsa ferðaskrifstofurnar sértilboð og lofa feitum afslætti.

Í dag tilkynnti Heimsferðir um tilboðspakka á spottprís eins og það er kallað. Þar má finna allt að 50 þúsund króna afslátt á mann að sögn ferðaskrifstofunnar ef bókað er næsta sólarhring. Það er 30 þúsund króna meiri afsláttur per mann en bauðst þeim er bókuðu í byrjun ársins í þeirri trú að njóta þannig bestu kjara.

Sömuleiðis henti Úrval Útsýn út aukatilboðum til Mallorca, Almería og Kanarí og þar um fjölmargar dagsetningar að ræða. Samkvæmt úttekt Fararheill er þar að finna allt að 20 þúsund króna afslátt á mann miðað við hefðbundið verð en oftar þó lægri afsláttur en það.

Sannarlega fínt að fá tilboð í sólina en að afsláttarkjör séu jafnvel betri nú en hjá forsjálu fólki sem bókaði fyrir tveimur til þremur mánuðum síðan gæti komið í bakið á ferðaskrifstofunum. Sérstaklega þegar ný tilboð gilda aðeins um nýjar bókanir og ná ekki afturvirkt. Það er fátt ömurlegra en bóka sólarferð og sjá sama pakka á lægra verði löngu síðar. Margir munu líkast til snúa viðskiptum sínum annað í kjölfarið.