Einhver gæti haldið að stjórnendur Icelandair væru á táberginu nú þegar hlutabréf í flugfélaginu falla hraðar en æra Ólafs Ólafssonar. Svo er þó ekki.

Til Brussel er valið auðvelt… Samsett mynd

Í það minnsta ekki til Brussel í Belgíu þetta haustið og veturinn samkvæmt lauslegri og óformlegri úttekt Fararheill. Þar er Wow Air almennt að bjóða svo mikið betur en Icelandair að okkur blöskrar. Það kemur í ljós á fjölmörgum dagsetningum á næstunni að Wow Air eru að bjóða sama pakka og Icelandair en fyrir 50% lægra verð per haus.

Helgarferð til Brussel með Wow Air plús taska og sætisval í byrjun september kostar manninn tæpar 29 þúsund krónur. Skjáskot

Það er upphæð sem okkur flest munar um og vægast sagt undarlegt að Icelandair skuli enn hanga á einokunarfargjöldum nú þegar einokun er ekki til staðar. Gott dæmi um þetta má sjá hér til hliðar en þar má sjá fargjald með Icelandair og Wow Air til Brussel og heim aftur í byrjun september. Hér skal hafa hugfast að við tökum 20 kílóa tösku plús sæti með hjá Wow Air svo samanburður verði raunhæfur enda slíkt „frítt“ með hjá Icelandair.

En gamla konan virðist ekki vera í samkeppnishæfu ástandi ef marka má fargjald Icelandair út og heim aftur í stuttri helgarferð. Lágmarksverðið fram og aftur til Brussel reynist vera litlar 44 þúsund krónur tæpar í sardínufarrými með tösku meðferðis.

Samkeppnishæf verð hjá Icelandair? Neibbs. Skjáskot

Fyrir reikninörda þá þýðir þetta að flug með Icelandair er rúmlega 50% dýrara en flug með Wow Air á sama tíma. Og hér sannarlega verið að bera saman epli og epli ef frá er talin sú staðreynd að Icelandair flýgur að mestu vélum sem framleiddar voru fyrir aldamót þegar mengun og mikil eldsneytiseyðsla þótti móðins. Vélar Wow Air aftur á móti, næsta undantekningarlítið, eru nýjar eða nýlegar og eyða allt að fjórðungi minna eldsneyti en gömlu Boeing-vélar Icelandair.

Við skulum vona að ríkisstarfsmenn, sem um ár og aldir flugu með Icelandair og fengu vildarpunkta nánast eftir óskum hafi nú skipt yfir til Wow Air. Þannig lækkar ríkið kostnað sinn til Brussel og getur lækkað skatta á fólk og fyrirtæki í framtíðinni 😉