Synd og skömm hversu fáir lesa aðra miðla en Fréttablaðið og Moggann. Því þar fást engar upplýsingar sem nýtast neytendum í landinni. Eins og til dæmis þá staðreynd að spara má töluverðan skilding á að fljúga til Alicante með Norwegian en ekki Wow Air.

Vissir þú ekki að okkur býðst beint flug héðan til Alicante með Norwegian?

Fararheill tók stikkprufur á fargjöldum til Alicante næstu vikur og mánuði og bar saman sérstaklega fargjöld Wow Air annars vegar og norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian hins vegar. Furðu fáir vita af því að norska flugfélagið býður beint flug milli Keflavíkur og þessa vinsælasta áfangastaðar Íslendinga erlendis.

Gróflega kemur í ljós að verðmunur aðra leið, eða fram og aftur, á allra ódýrasta farrými/fargjaldi er lítill. Á því fargjaldi er ekkert eða lítið sem ekkert innifalið hjá hvorugu flugfélagi og verðmunur í besta falli tvö til þrjú þúsund krónur eða svo aðra leið. Það skiptir því engu höfuðmáli hvort flugfélagið verður fyrir valinu ef þú ert ekki að ferðast með eitt né neitt.

Stakkaskipti verða hins vegar ef þú þarft eða vilt taka farangur með. Og hver okkar er ekki að massa eina tösku eða svo þegar ferðinni er heitið til Alicante. Um leið eykst verðmunur milli Norwegian og Wow Air töluvert. Hjá Wow Air heitir það fargjald Wow Plus en hjá Norwegian LowFare+. Það merkir að handfarangur plús innrituð taska er innifalin en að auki færðu að velja sæti hjá Norwegian plús að það er gjaldfrjáls aðgangur að neti um borð. Wow Air leyfir þér ekki að velja sérsæti og þaðan af síður býður eitthvað frítt eins og netaðgang.

Við bárum saman fargjöld flugfélaganna þrjá mánuði fram í tímann og sem fyrr segir er lítill munur ef ferðast er með ekkert. En um leið og taska þarf að fljóta með getur munað rúmum tíu þúsund krónur AÐRA LEIÐ á fargjöldum með þessum flugfélögum og það Norwegian í vil. Sem sagt rúmlega 20 þúsund króna verðmunur fram og aftur. Það ekki lítill munur á nákvæmlega sama flugi.

Ekki nóg með það heldur er annar risakostur við Norwegian umfram Wow Air. Hann sá að undantekningarlítið eru vélar Norwegian að lenda hér heima síðdegis frá Alicante. Vélar Wow Air frá Alicante hins vegar lenda um miðja nótt. Það er risaplús eins og allir foreldrar geta staðfest.