Svona tiltölulega miðsvæðis í Þýskalandi stendur fjallgarðurinn Harz sem státar svona nokkuð af sömu fegurð og hinn frægi Svartiskógur sunnar í landinu. En ólíkt Svartaskógi er töluverð hætta á að fólk sem vill njóta útivistar í Harz rekist á allsnakið fólk þegar minnst varir.

Áfram Kristsmenn, krossmenn og naktir með. Skjáskot

Þjóðverjar eru eins og þeir eru og gott og blessað enda væri heimurinn súr og sorglegur ef allir væru eins. En það þýðir að þeir margir eru afar spenntir fyrir að fetta sig öllum klæðum af minnsta tilefni. Þarf aðeins að gúggla nektarstrendur eða -svæði í landinu til að fá mörg þúsund síður af ábendingum um hentuga staði alls staðar.

Þrátt fyrir ógrynni áfangastaða, ef lesendur eru spenntir fyrir að valsa um í fæðingargallanum, er þó aðeins formlega einn staður þar sem leyfilegt er að henda bakpoka á öxlina og taka svo sporið allsnakin eftir 25 kílómetra löngum fjallgöngustíg. Stíg sem er eingöngu fyrir náttúrusinna í þýskri merkingu orðsins. Sá staður er í Harz.

Nektarstígurinn sá hefur sannarlega fengið athygli þýskra miðla og athyglisverðast við flestar greinar um stíginn að þær fjalla alls ekki um hversu fáranlegt það sé að stika af sérstakt fjallsvæði fyrir berrassað göngufólk. Þvert á móti undrast margir að slíkt sé ekki gert víðar í landinu.

Til að prófa herlegheitin er ráð að koma sér fyrir í þorpinu Dankerode við rætur Harz. Það gæti glatt áhugasama að í sama bæ er sérstakt tjaldsvæði aðeins ætluðum nektarsinnum svo fínt að byrja þar. Næsta skref að ná tali af eiganda tjaldsvæðisins sem er sami einstaklingur og skipuleggur göngurnar.

Kannski ráð að taka með skó samt…