Spænskar rannsóknir sýna að tiltölulega fáir erlendir ferðamenn sem heimsækja Tenerife gera sér mikið far um að flakka um og skoða eyjuna í þaula. 95 prósent þeirra láta sér nægja að sulla annaðhvort í flæðarmálinu á suðurströndinni eða bjórnum á næsta strandbar. Nema hvorugtveggja sé.

Vel yfir tuttugu píramídar á Tenerife en þeir best varðveittu allir á sama staðnum. Skjáskot

Gott og blessað enda er Tenerife hvorki vagga menningar né nafni alheimsins og jafnvel þeir sem hafa áhuga á að vappa um, skoða og læra út í eitt verða að taka þrjár sturtur á dag bara til að vera sómasamlegir til fara.

En fyrir utan verulega almenna náttúrufegurð um leið og þú yfirgefur sólbrenndar strendurnar í suðri eru eitt og annað verulega merkilegt á þessari litlu spænsku eyju. Þar sennilega merkilegast af öllu að á Tenerife finnast píramídar.

Já, þú last þetta rétt. Það finnast einir tíu píramídar á eynni og allir merkilega heillegir og verðir ferðar. Þeir finnast að mestu í útjaðri smábæjarins Güímar á austurhluta Tenerife í um 20 mínutna akstursfjarlægð frá höfuðborg eyjunnar Santa Cruz. eða 40 mínútna akstursfjarlægð frá vinsælum sólarstöðum á suðurhluta eyjunnar.

Neibbs, þeir eru ekki vel yfir hundrað metrar á hæðina eins og þessir heimsfrægu í Egyptalandi og í Mið-Ameríku. Þeir eru heldur ekki jafn gamlir og þessir frægu þó enn sé töluvert deilt um hversu gamlir þeir séu. Sumir segja þá tveggja alda gamla meðan aðrir segja þá í besta falli reista snemma á nítjándu öld.

Hvað sem hæft er í því er alls óvitlaust að gera sér ferð til Güímar svona hálfa dagsstund eða svo til að vitna merkilegheitin. Þetta eru stallaðir píramídar á borð þessa heimsfrægu þó lægri séu og eins og með aldurinn deila fræðingar enn um hvers vegna þeir voru reistir.

Aldeilis fín leið ef einhverjum fer að leiðast sólbaðið á Costa Adeje og skoða eitthvað hundrað prósent frábrugðið matseðlinum á barnum. Ekki skemmir heldur að í Güímar er gott þjóðminjasafn þar sem ljósi er varpað á sögu lands og þjóðar.

Það toppar enn einn bjórinn á barnum að okkar mati 😉

PS: frægasti landkönnuður Norðmanna, Thor Hayerdahl, settist að í Güímar á elliárum sökum forvitni hans um umrædda píramída. Kappinn, sem kvikmyndin Kon Tiki, fjallar um eyddi hér síðustu æviárunum.