Eyjaskeggjar á Kanaríeyjum hafa ekki minna gaman af því að slá sér upp reglulega en aðrir og þar hæg heimatökin því litlar sem engar áhyggjur þarf að hafa af veðri og vindum.

Það er alltaf gaman að lenda í óvæntum hátíðarhöldum þegar dúllast er erlendis og okkur datt í hug að láta þig vita af þremur slíkum sem fara árlega fram á Tenerife. Ekki þessum hefðbundnu hátíðum um jól og páska heldur nokkrum sem finnast eiginlega aðeins hér á eyjunni. Nánar tiltekið í höfuðborg eyjunnar Santa Cruz de Tenerife. Nú er flogið þangað reglulega allt árið frá Íslandinu góða og því auðvelt og stundum tiltölulega ódýrt að skjótast þangað niðureftir og njóta lífsins.

Carmen borin til sjós í Santa Cruz. Sú er verndardýrlingur sjómanna og í hávegum höfð. Mynd Cony Bar
Carmen borin til sjós í Santa Cruz. Sú er verndardýrlingur sjómanna og í hávegum höfð. Mynd Cony Bar

Hátíð heilagrar Carmen er haldin þann 16. júlí ár hvert en Carmen sú er verndardýrlingur sjómanna. Þar sem sjómennska er enn stór atvinnuvegur hér er skiljanlegt að menn hylli hana með líkneski, skrúðgöngum og sendi hana svo til sjós við höfnina. Skemmtilegt fyrirbæri sem einnig fer fram með mun minna sniði í Santiago de Teide, Arofo og Puerto Santiago.

Mikil hátíð í höfuðborginni til að minnast dagsins þegar Santa Cruz var formlega stofnuð.
Mikil hátíð í höfuðborginni til að minnast dagsins þegar Santa Cruz var formlega stofnuð.

Íbúar Santa Cruz klæða sig allir sem einn upp í hátíðarbúning til að minnast þess dags, 3. maí, þegar Santa Cruz var formlega stofnuð. Hér var reyndar byggð fyrir þann tíma en ekki á forræði Spánverja. Afar gaman að vitna heimafólk í búningum sínum en ekki síður skemmtilegar eru skrúðgöngur og veislur þar sem matur úr héraði er á borðum í stórum stíl.

Allt með minna sniði en í Ríó en feykigott sjó samt sem áður. Mynd AyuntamentdeSC
Allt með minna sniði en í Ríó en feykigott sjó samt sem áður. Mynd AyuntamentdeSC

Langi einhvern á kjótkveðjuhátíð í Ríó en ekki með seðla til er óhætt að bregða sér þess í stað til Santa Cruz um mánaðarmótin febrúar mars. Þá fer fram kjötkveðjuhátíð Santa Cruz sem er sannarlega skemmtileg og merkilega fjölmennt karnival þó vissulega ekki á pari við það brasilíska. Tímasetningar flöktandi milli ára en yfirleitt síðustu viku febrúar eða fyrstu viku mars.