Skip to main content

F ararheill hefur tæpt á þessu áður en góð vísa er svo sem aldrei of oft kveðin. Allt of margir klikka á að forvitnast um „menu del día“ á veitingastöðum á Kanaríeyjum. Það þýðir í raun þrí- og stundum fjórréttaðan málsverð fyrir um 1500 íslenskar krónur eða svo.

Góð kaup og yfirleitt frábær matur. Mynd total13

Góð kaup og yfirleitt frábær matur. Mynd total13

Það er gróflega svipað verð og þú greiðir fyrir einn aðalrétt ella á flestum veitingastöðum á Kanarí. Sem er ástæða þess að afar fáir veitingastaðir sem gera út á ferðamenn auglýsa menu del día, sem útleggst sem matseðill dagsins. Slíku er nefninlega stefnt að heimafólki sem yfir höfuð hefur úr minni fjármunum að spila en erlendir gestir.

Það þýðir þó ekki að slíkt sé ekki í boði. Oftar en ekki er dreginn fram menu del día um leið og beðið er sérstaklega um. Annars er pantað af matseðli, à la carte, og það kostar undantekningarlaust meira svo séðir veitingamenn láta ógert að bjóða matseðil dagsins.

Þetta er ekki einskorðað við Kanarí. Slík tilboð eru regla frekar en undanteking á Spáni öllum og Portúgal í þokkabót. Sömuleiðis má finna slík tilboð í suðurhluta Frakklands og á köflum á Ítalíu.

Fyrir utan þær krónur sem kannski sparast við vel að fá sér vel útilátinn málsverð er hægt að færa rök fyrir að maturinn sé eins fyrsta flokks og framast er unnt og jafnvel betri en þeir réttir sem ferðafólkið fær á disk sinn. Flestir veitingastaðir þurfa nefninlega aðeins að sýna ferðafólki lit einu sinni eða tvisvar en reksturinn að öðru leyti hvílir á að heimamenn komi aftur og aftur þess utan. Og Spánverjar, Portúgalir og Frakkar eru ekki þekktir fyrir að láta sig hafa skít og kanil.

Verið því ófeimin að spyrja. Það er ekki merki um nísku að vilja sjá menu del día. Þvert á móti eiginlega því þá vita þjónar um leið að þar er á ferðinni fólk sem veit hvað það syngur.

Gjarnan er súpa eða salat í forrétt, fiskur og/eða kjötréttur í aðalrétt og svo annaðhvort lítill eftirréttur eða í versta falli te, kaffi, gos eða bjór. Fimmtán hundruð krónur fyrir slíkt er brandari. Bara muna að þau tilboð gilda jafnan frá hádegi og fram til þrjú eða fjögur á daginn.