Velflest höfum við sótt eina eða aðra Kanaríeyjuna heim gegnum tíðina enda vafalítið ljúfasti staður Evrópu til að sóla kropp og anda með nefinu meðan heima gnauðar vindur 24/7 og annar hver maður að deyja úr stressi.

Kanaríeyjar séð með gervitunglum NASA
Kanaríeyjar séð með gervitunglum NASA

En flest erum við líka sek um að hanga á sömu stöðunum á eyjunum ár eftir ár og jafnvel áratugi eftir áratugi.

Það er auðvitað voða ljúft að hanga bara og láta tímann líða áhyggjulítið á stað sem maður gjörþekkir svo vel að stöku þjónar á veitingastöðum þekkja þig með nafni. (enska ströndin einhver).

En það er slæmt fyrir heilann. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ef við kynnumst aldrei neinu nýju fara taugaboðstöðvar heilans að deyja langt fyrir aldur fram. Við þurfum ferska upplifun reglulega til að halda heilanum á tánum ef svo má að orði komast.

Þess vegna er kannski óvitlaust að rísa eins og einu sinni úr sundlaugarbekknum á ensku ströndinni og kynna sér hvað annað spennandi eyjan og eyjurnar bjóða upp á. Stundum þarf ekki einu sinni að staulast á lappir.

Vissir þú til dæmis að Kanaríeyjar eru ekki nefndar eftir kanarífuglum eins og yfirgnæfandi meirihluti fólks heldur? Ekki aldeilis. Nafnið er talið koma frá Rómverjum sem vissu af tilvist eyjanna fyrir mörgum öldum en gerðu þó fátt til að marka sín spor hér. Rómverjar fundu hér töluvert af selum á Gran Canaria á sínum tíma en seli kölluðu Rómverjarnir sjóhunda. Og orðið canaria er latneska heitið á hundum. Eyjurnar ættu því að heita Hundaeyjur á hinu ylhýra.

Fáir ferðamenn hafa fyrir að kíkja yfir á smáeyjuna La Gomera sem er í ferjufjarlægð frá Tenerife. Sú er strjálbýl og of hrjóstug til að heilla að ráði en fjallent er þar mjög miðað við aðrar eyjar hér. En vissir þú að innfæddir á La Gomera eiga sitt eigið sérstaka tungumál? Það heitir silbo gomero og er meira blístur en tungumál. Það gamla tungumál var í útrýmingarhættu um síðustu aldamót þegar spænsk stjórnvöld ákváðu að það skyldu allir læra í skóla eftirleiðis. Prófaðu að forvitnast hjá heimamanni á staðnum og hver veit nema hann blístri fyrir þig eitthvað fallegt.

Við Íslendingar erum voða montin af hitanum í jörðinni undir landinu okkar. Frægur er veitingastaður í Hveragerði þar sem eldað er á heitri gufu beint frá jörð svo eitt dæmi sé tekið. Sá í Hveragerði er þó ekki jafn gamall og veitingastaðurinn El Diablo á Lanzarote. Þar er funhiti í jörð líka og þar er matur eldaður yfir hitanum frá jörðu og hefur verið svo um langt skeið. Staðurinn þykir reyndar helst til „túristalegur“ þessi dægrin en forvitnilegt samt.