Það styttist nú óðum í jómfrúarflug Wow Air til og frá Nýju-Delí í Indlandi og flugfélagið fer mikinn á samfélagsmiðlum að auglýsa súperlág fargjöld sín. Sem eru vissulega góð. Hægt að fá flug aðra leiðina til Íslands niður í 20.700 krónur og flug áfram héðan til Bandaríkjanna fást frítt með. En sem fyrr er hængur á.

Skúli Mogensen er komin langleiðina með að bjóða ókeypis flugfargjöld eins og hann hefur talað um sem framtíðina, ef marka má fargjöld Wow Air frá Indlandi til Bandaríkjanna vía Ísland. Héðan kostar ekki krónu að komast til Detroit, Boston, San Francisco, Washington DC, Toronto, St.Louis, Chicago, Los Angeles eða Pittsburgh.

Það kostar sem sagt sama að fljúga frá Nýju-Delí til Reykjavíkur og það kostar að fljúga frá Nýju-Delí til Los Angeles.

Sem er skrambi undarlegt út af fyrir sig því ef okkur hér langar vestur um haf eru 20 til 30 þúsund krónur algjört lágmark fyrir flug aðra leiðina. Lægsta verð aðra leið til Los Angeles héðan kostar tæpar átján þúsund krónur og það án alls farangurs. Hvers vegna fær Indverjinn slíkt ókeypis en við ekki?

En þetta versnar enn og það töluvert. Því detti Indverjum í hug að skoða fargjöld Wow Air til baka sömu leið heim gætu þeir fengið feita gusu framan í sig. Þrátt fyrir töluverða leit á indverskum vef Wow Air finnum við hér ALLS EKKERT fargjald til baka til Indlands undir 30 þúsund krónum án alls.

Það kostar því að lágmarki HELMINGI meira að fljúga heim aftur frá Bandaríkjunum fyrir Indverja en það kostar að skottast útleiðina hvort sem fólk er með farangur eður ei. Þetta velþekkt trix hjá Wow Air nú orðið. Það er alltaf mun ódýrara að fljúga með þeim til Alicante en heim aftur.

Sem vekur jú furðu hjá hugsandi fólki. Þetta er nákvæmlega sama flugferðin en bara í öfuga átt. Hvers vegna er eðlilegt að heimleiðin kosti helmingi meira? Er kostnaðurinn til baka svona mikið hærri? Og hvers vegna fá Indverjar fríar ferðir til Bandaríkjanna héðan en Íslendingar ekki? Kallast það ekki gróf og alvarleg mismunun?