Erlend flugfélög, þar með talin mörg bandarísk, kanadísk, frönsk, þýsk og norræn, bjóða viðskiptavinum sínum að breyta flugi þeim að kostnaðarlausu ef veðurspáin á flugdegi er hörmuleg. Icelandair og Wow Air slétt sama þó farþegar þurfi að bíða klukkustundum saman.

Ofsaveður framundan á klakanum? Drullastu til að skrá þig inn í Leifsstöð og vonaðu það besta…

Töluvert óveður gekk yfir suðausturhluta Bandaríkjanna í byrjun vikunnar. Þó slæmt væri þurftu þeir er áttu bókað flug þann tíma ekki að örvænta. Þeim gafst færi á að endurbóka flug sitt þeim að kostnaðarlausu.

Fyrr í vetur var spáin allsvakaleg fyrir stóran hluta af Kanada. Flugfélagið Air Canada og dótturfélög þess biðu ekki boðanna heldur buðu farþegum að endurbóka, þeim að kostnaðarlausu, allt að viku síðar.

Sömu sögu er að segja af flugfélaginu SAS. Þar kostar yfirleitt ekkert að breyta flugmiða með dagsfyrirvara ef veðurspá gerir ráð fyrir slæmu veðri.

Súperfín þjónusta! Ekki aðeins eru flugfélögin sem hér um ræðir, sem auðvitað tapa stórum upphæðum, samt að bera hag viðskiptavina fyrir brjósti heldur og gæta þess að þeir fjölmörgu sem finnst erfitt að fljúga fái ekki hreint og beint hjartaáfall. Það er jú ekki eins og rellan vaggi ekki grimmt til og frá ef tekið er á loft eða lent í alvarlegu veðri og vindum.

En heimavið er þjónusta eitthvað slæmt ofan á brauð og varla það. Slæm veðurspá? Komdu þér bara samt út í Leifsstöð og bíddu þar eins lengi og þörf krefur. Eða bíddu úti í vél klukkustundum saman eftir að komast frá borði.

Topp þjónusta ekki satt…