Skip to main content
Tíðindi

Þjónusta Icelandair og Iceland Express versnar

  08/09/2011desember 5th, 2014No Comments

Þjónustustig bæði Icelandair og Iceland Express fer versnandi að mati viðskiptavina flugfélaganna tveggja. Bæði flugfélögin lækka í einkunn frá síðasta vori.

Nú er yfirstaðin helsta vertíð þessara tveggja flugfélaga þetta árið þegar bæði fluttu fleiri erlenda farþega en innlenda til og frá landinu.

Af því tilefni fór Fararheill.is yfir umsagnir farþega flugfélaganna hjá vefmiðlinum Skytrax og í ljós kemur að bæði fá lakari einkunn nú en í apríl í vor.

Hjá Skytrax gefst viðskiptavinum flugfélaga heimsins færi á að tjá ánægju eða óánægju sína með viðskipti sín og gefa einkunn frá einum upp í tíu.

Stendur Iceland Express sig enn hörmulega og er við botninn með aðeins 1,7 stig af tíu mögulegum.

Hafa skal hér í huga að umsagnirnar koma frá erlendum viðskiptavinum og því hefur mikil og neikvæð umræða um Iceland Express hérlendis lítil áhrif haft á skoðanir fólks. Fellur Iceland Express niður síðan í apríl þegar einkunn fyrirtækisins var 2,1.

Sömuleiðis fellur Icelandair meðal erlendra viðskiptavina sinna. Mældist fyrirtækið með einkunnina 5,6 í apríl síðastliðnum en er nú með 5,3 í einkunn frá viðskiptavinum. Er því langur vegur frá að þessi tvö flugfélög séu með sérstaklega góða þjónustu í sínum flokki.