Gegnum tíðina hefur það oft komið ferðafólki í Þýskalandi á óvart hversu algengt er að heimamenn spásseri um í afmælisfötunum við strendur, vötn og jafnvel í almenningsgörðum í landinu. Þar valsa afskaplega misvel á sig komnir Þjóðverjar um án þess að nokkur blikki auga. Þangað til núna.

Enn má spássera fram á kviknakið fólk í Englisher Garten í Munchen en það er öllu færra í þeim hópum en áður var. Mynd G.Cosella
Enn má spássera fram á kviknakið fólk í Englisher Garten í Munchen en það er öllu færra í þeim hópum en áður var. Mynd G.Cosella

Nekt hefur aldrei þótt tiltökumál meðal Þjóðverja og er reyndar gert svo hátt undir höfði að sérstök samtök slíkra nektarunnenda eru viðurkennd hjá þýska Ólympíusambandinu.

En þýskum stríplingum fækkar nú óðum og hafa margir af eldri kynslóðinni af því verulegar áhyggjur að því er fram kemur í tímaritinu Stern.

Þannig er ekki líklegt lengur eins og var aðeins fyrir tíu árum síðan að rekast á nakið fólk í Enska garðinum, Englischer Garten, í Munchen eða sjá hópa strípalinga spila strandblak á ströndinni við Sylt skammt frá dönsku landamærunum.

Ástæðan fyrir dvínandi vinsældum er þó ekki að Þjóðverjar sjálfir hafi misst áhugann heldur er þýskt samfélag að breytast mikið nú þegar fólk frá fyrrum Austur Þýskalandi, sem ekki kynntist ást á nekt af neinu ráði, er farið að blandast vel og ekki síður er litið niður á þennan sið af þeim fjölmörgu innflytjendum sem nú búa í landinu og eru margir strangtrúaðir.

Síðast en ekki síst hafa Þjóðverjar almennt, eins og flestir aðrir, bætt töluvert á sig af kílóum og líta því ekki alveg eins vel út naktir og þeir kannski gerðu áður.

Enn er þó einhver árafjöldi áður en nakið fólk hverfur með öllu því talið er að átta milljónir Þjóðverja fækki öllum fötum reglulega á ströndum og við vötn á hverju ári.