Fátt er verra fyrir nútímafólk á faraldsfæti en að týna snjallsímanum. Hann er jú orðinn eitt helsta verkfæri fólks og þar geymd reiðinnar ósköp af myndum, myndböndum og skeytum sem okkur finnast dýrmæt. Fyrir utan auðvitað að varla nokkur maður leggur símanúmer á minnið lengur.

Nei, það er fátt leiðinlegra en týna símanum á þvælingi í ókunnum borgum eða löndum. Næstum jafn leiðinlegt og að týna veskinu, kreditkortum eða vegabréfinu.

Erlendar kannanir sýna að það eru einmitt símarnir sem ferðamenn týna oftast á ferðum sínum en þar reyndar með talin þau skipti sem símum er stolið. Slíkt gerist æ algengara nú þegar sæmilegur snjallsími skjagar í hundrað þúsund krónurnar og þeir flottustu gott betur en það. Þjófar geta vel nælt sér í tugþúsundir króna með því að selja flotta síma sem þeir hafa nappað.

Við því er lítið að gera nema vera á varðbergi (eða gera eins og helmingur ritstjórnar hér sem skiptir út dýrari símanum fyrir gamlan í hvert sinn sem flakkað er um erlendar grundir. Þjófar hafa alls engan áhuga á fimm ára gamalli týpu af iPhone eða Samsung og þeir þekkja muninn úr mílufjarlægð.)

Það er hins vegar eitt og annað sem við getum gert til að fá símann okkar aftur ef fyrir kemur að við týnum honum eða gleymum einhvers staðar. Það er til að mynda ekki of flókið að koma fyrir skilaboðum á skjá símans ef gripurinn skyldi óvart lenda í höndum einhvers heiðarlegs manns eða konu.

Þetta má glöggt sjá hér að ofan. Þar hefur kona ein komið fyrir skilaboðum á forsíðu síma síns þess efnis að hringja í x-númer ef síminn finnst einhvers staðar. Stúlkan atarna beinir líka athyglinni að skilaboðum undir bakhlið símans þar sem frekari upplýsingar finnist og lofar meira að segja fundarlaunum svona í þokkabót.

Þau okkar sem ekki hlakkar í þegar við finnum dýran snjallsíma á víðavangi þurfum í slíku tilfelli aðeins að hringja eitt símtal til að sá eða sú sem týndi símanum geti nálgast hann aftur. Jafnvel líka komið símanum til lögreglu þar sem heimatökin eru hæg að ná í viðkomandi.

Tæknilega er einfalt að útbúa slík skilaboð sem opnast ókunnum um leið og ýtt er á einhvern takka á nýlegum snjallsíma. Einfaldast að sníða til ljósmynd í tölvunni heima en í þeim flestum má finna myndvinnsluforrit, og ef ekki þar þá er ógrynni slíkra forrita á netinu. Þar má taka mynd, helst lóðrétta með ljósu svæði neðarlega, klippa hana til eftir stærð símans, 320×480 er yfirleitt nothæf stærð, og bæta neðst þeim texta sem þú vilt að birtist ef ókunnur aðili finnur símann þinn. Sendir þá mynd svo yfir í símann og setur sem forsíðumynd. Hafðu það stutt og laggott og merktu nafn og heimilisfang jafnvel líka á límmiða sem þú setur á innanvert bakið á símanum.

Það er aðeins þannig sem heiðarleg ókunn manneskja getur komið síma aftur til síns eiganda. Gildir þá einu hvort þú ert erlendis eða heima í Hafnarfirði. Símar eru yfirleitt læstir og ómerktir svo að jafnvel þó vilji sé til að koma síma aftur í hendur eiganda er engin leið að finna eigandann.

Svona til að gefa þér hugmynd um umfang vandans er óhætt að nefna að á nýliðinni Októberfest í Munchen fann starfsfólk 900 snjallsíma sem gestir höfðu gleymt eða týnt. Metið er þó frá árinu 2014 þegar rétt tæplega tvö þúsund snjallsímar fundust að hátíðinni lokinni.

Allur er varinn góður 🙂