„Mig langar gjarnan að vita hvernig stendur á því að eftir að vera búin að bóka gistingu á Kanarí gegnum Booking kemur í ljós við innritun að engin bókun á okkar nafni fannst hjá hótelinu? Samt erum við með allar staðfestingar á pappír frá Booking?„

Lok, lok og læs og flest úr stáli. Stundum kemur fyrir að bókun reynist ekki vera bókun. Mynd holidayextras

Ofangreint er úr skeyti sem við fengum nýverið frá lesanda.

Á heimsvísu eru slík tilvik æ algengari nú þegar fleiri og fleiri kjósa að spara og bóka sjálf hótel og ferðir hingað og þangað.

Því miður er mínusinn við að gera og græja sjálf sá að þá er langt í hjálp eða aðstoð ef eitthvað bjátar á. Stundum hægt að hringja en það kostar formúgur og bið eftir aðstoð hjá stórum aðilum eins og Booking geta verið nokkrar klukkustundir ef ekki hreint og beint sólarhringar.

Hvort sem um er að ræða Booking eða aðra aðila á þeim markaði þá kemur fyrir af og til að þeir sem átt hafa bókað nótt eða nætur á tilteknu hótel eða gististað koma að lokuðum dyrum þegar ferð hefst. Þá hefur eitthvað misfarist; bókunin verið felld niður eða aldrei staðfest þrátt fyrir pappíra þess efnis.

Ástæður þessa geta verið nokkrar en sú algengasta er að mörg hótel og gististaðir gera samninga við fleiri en einn bókunaraðila. Þá leitast eigendur við að bjóða aðeins mismunandi verð per nótt per herbergi og ná þannig meiru inn í kassann fyrir sömu vöru. Það er ástæða þess að eitt og sama herbergi á sama hóteli getur kostað sex þúsund per nótt hjá okkur hjá Fararheill en sama herbergi með sömu þjónustu sömu nótt gegnum Wow Air eða Dohop kostar níu þúsund krónur.

Það kemur fyrir að tvær bókanir eða fleiri fyrir sama tíma berast hótelum á svipaðri stundu. Hjón í Ástralíu bóka til dæmis viku á ensku ströndinni á Kanarí með öllu inniföldu fimm mínútum eftir að hjón á Íslandi bókuðu sömu viku en án fæðis. Íslensku hjónin bókuðu aðeins á undan og samkvæmt bókunarvefnum er gistingin tryggð og jafnvel greidd líka.

En þá kemur til kasta hóteleiganda eða stjórnanda. Geti sá fengið inn hjón sem greiða 200 þúsund fyrir viku með öllu í stað hjóna sem greiða 110 þúsund og ætla að borða annars staðar en á hótelinu þá er viðkomandi vandi á höndum. Því miður eru margir hótelstjórar víða í veröldinni tækifærissinnar og jafnvel undir pressu að auka hagnað per hverja bókun. Þeir græða meira á þeim sem taka allt innifalið en hinum. Þeir fella því niður bókun Íslendinganna, gefa einhverja bullástæðu, og færa Ástralina inn í staðinn jafnvel þó tekið hafi verið við greiðslu frá Íslendingunu. Sem merkir að Íslendingarnir í þessu tilfelli koma að lokuðum dyrum þegar komið er á hótelið sjálft.

Engar áhyggjur af fjármunum í slíkum tilfellum. Bókunarfyrirtækin greiða slíkt strax til baka undantekningarlítið. Vandamálið snýst hins vegar um hvar skal þá gista ef allt er uppselt á uppáhalds hótelinu. Það er jú fáránlegra en allt fáranlegt að fara að flakka milli hótela á öllum hugsanlegum tímum sólarhringsins til að finna hótel með laus herbergi sem ekki kosta formúgur.

Einn úr ritstjórn Fararheill hefur lent í slíku tilviki og komst miklu auðveldar út en nokkurn hefði grunað. Í ljós kom að engin innistæða var fyrir bókun á hóteli í Valensía á Spáni í apríl síðastliðnum. Það þrátt fyrir að vera með plögg sem sýndu fram á slíkt og greiðslu umræddan tíma. En vegna hjálpsemi starfsmanns kom strax í ljós í kjölfarið að nokkuð var af lausum herbergjum á þessu tiltekna hóteli þessar nætur sem um ræddi.

Gott betur en það. Eftir samtal við hótelstjóra bauð starfsmaðurinn þá gistingu sem greitt hafði verið fyrir gegnum bókunarvél á LÆGRA verði en var í boði á bókunarvélinni með margra mánaða fyrirvara. Viðkomandi fékk því gistinguna á 16 prósent lægra verði en ella aðeins vegna þess að upprunaleg bókun reyndist innistæðulaus og að viðkomandi hótel var með laus herbergi. Lægra verð fékkst vegna þess að hótelið þurfti ekki að greiða neinum öðrum aðila þóknun fyrir bókunina.

Ekki algilt en ágætt að muna að fara ekki á taugum ef slíkt hendir einhvern þarna úti. Það eru lausnir á flestu undir sólinni 🙂