Guði sé lof fyrir vísindin. Án þeirra værum við enn sátt í moldarkofum og ævilíkur okkar rétt yfir 50 árin. Og fræðingar eru enn að dúndra út alls kyns fróðleik sem kemur okkur vel. Til dæmis að nota sólarvörn um borð í millilandavélum.

Blessuð sólin elskar allt, allt með kossi vekur. En það er bara ekki alls kostar rétt 😉

Víst hljómar það nú dálítið kjánalega. Sólarvörn í farþegaþotu!!!

En erlendir húðsjúkdómafræðingar sem ferðatímaritið Condé Nast hefur rætt við mæla sterklega með slíkri vörn um borð í millilandaþotum og þá sérstaklega í langflugi. Það er að segja ef þú ert nálægt glugga 😉

Ástæðan ofur einfaldlega sú að geislar sólarinnar eru stórhættulegir í of stórum skömmtum. Svona hanga-allan-daginn-hálfnakin-á-ströndinni skömmtum. Slæmur sólbruni eyðileggur ekki aðeins gott frí heldur getur hrint af stað keðjuverkun í líkamanum sem getur orsakað jafn alvarlega sjúkdóma og krabbamein á ótrúlega skömmum tíma.

Ef sólin getur bókstaflega steikt á þér skinnið á nokkrum klukkustundum á spænskri ströndu gefur auga leið að hún getur skaðað þig töluvert meira í mörg þúsund feta hæð yfir jörðu. Víst eru gluggar í farþegavélum í smærri kantinum en samt nógu stórir til að senda margfalt magn alvarlegrar geislunar þráðbeint á húð þess sem situr við glugga. Þú getur, með öðrum orðum, verið að brenna mun alvarlegar við glugga í farþegavél, en klæðalítil í flæðarmálinu á Benídorm.

Til að færa heim sanninn um hversu alvarleg sólarmengun getur verið í háloftunum er óvitlaust að skoða myndina hér til hliðar. Hér er ónefndur einstaklingur sem starfað hefur sem bílstjóri um 30 ára skeið. Það aftur þýðir að annar hluti andlitsins er alltaf mót sól og birtu á vegum úti. Víst eru gluggar á bifreið mun stærri en gluggar farþegavéla en ef sólin veldur tvöfaldri öldrun húðarinnar öðru megin hjá bílstjóra á jörðu niðri má ganga að því sem vísu að jafnvel þó enginn sé bruninn þá nær sólin samt að eyðileggja töluvert í líkamanum á flugi.

Sólarvörn möst.