Ferðaþyrstir þekkja þetta vel. Þú bókar tiltekinn bíl gegnum netið hjá þekktri bílaleigu en þegar á staðinn er komið kemur í ljós að bíllinn sem þú bókaðir er uppseldur og steingeld Toyota Corolla það eina sem í boði er í staðinn.

Það sem þú sérð er það sem þú færð 🙂 Mynd Turo

Þetta er ástæða þess að nánast allar stóru bílaleigur þessa heims auglýsa flottustu týpurnar í hverjum flokki fyrir sig á netinu en tiltaka líka allar í smáa letrinu að bifreiðin sem þú leigir á endanum gæti verið allt önnur bifreið en þú sást fyrir þér við bókun. Það útskýrir þetta „eða sambærilegan“ sem er tiltekið á velflestum bílaleigum heims. Og hvað vitum við hvað bílaleigustjórar telja vera „sambærilega“ bíla? Það er jú engin alþjóðleg opinber nefnd sem ákveður slíkt.

Pirrandi ekki satt?

En hvað ef bíllinn sem við pöntum er í 100 prósent tilfella bíllinn sem við fáum afhentan þegar út er komið? Og hvað ef bíllinn atarna væri jafnvel líka allnokkuð ódýrari í leigu en í sams konar flokki hjá bílaleigum (en þó ekki á Íslandi)?

Það fyrirbæri er sannarlega til. Sumir kalla það Airbnb fyrir bílaleigubíla. Aðrir þekkja það sem Turo.

Turo hefur rutt sér vel til rúms á skömmum tíma þó fæðingin hafi tekið tíma. Hér er bókstaflega um það að ræða að „bílaleigubíllinn“ sem þú pantar er bifreið í eigu einstaklings sem kýs að leigja út skrjóðinn til að afla tekna. Þú ert sem sagt að leigja bifreið af Jóni og Gunnu hvert sem þú ferð.

Hver er plúsinn við það? Þeir nokkrir en kannski helstir að þú ert að fá nákvæmlega þá bifreið sem þú pantar. Þú færð ekki Fiat Punto ef þú bókaðir Volkswagen Go. Þú færð ekki Toyota Camry þegar þú bókar Mercedes C.

Ekki leiðinlegt heldur að þú þarft yfirleitt að punga töluvert lægri upphæð út en hjá hefðbundnum bílaleigum þó á því séu undantekningar eins og auglýsingar frá Íslandi sýna glöggt. Þar ræður húrrandi græðgi ríkjum eins og víðar á því landinu. Eða hver vill leigja þriggja ára Toyota RAV tík fyrir litlar 19 þúsund krónur á sólarhring?

Engar áhyggjur af tryggingum og slíku mausi. Allar mögulegar tryggingar í boði hér sem hjá hefðbundinni ferðaskrifstofu og þú velur þær eftir hentugleik. Ekki síður plús að oftar en ekki er eigandinn og leigjandinn reiðubúinn að koma bílnum beint til þín, hvort sem það er á næstu flugstöð eða á næsta hótel. Full service eins og Kaninn segir 🙂

Um að gera að prófa Turo. Fararheill hefur prófað þjónustuna og sömuleiðis fjórir aðrir aðilar sem við vitum af og í öll skiptin vandræðalaust með öllu.

Turo hér.