Það má Spánn eiga að landið er að langstærstu leyti afskaplega öruggt til ferðalaga sem er langt í frá gefið með tilliti til að atvinnuleysi og örbirgð er þar mikil nú og hefur reyndar alla tíð verið töluvert yfir meðaltali annarra Evrópuríkja. Þó fölbleikir Íslendingar hafi stöku sinnum verið rændir hafa fáir lent í mikið alvarlegri aðstæðum en það.

Einn sá bær sem allra verst hefur orðið úti í efnahagshamförum þeim er dunið hafa yfir Spán er La Linea við hlið hins breska Gibraltar kletts
Einn sá bær sem allra verst hefur orðið úti í efnahagshamförum þeim er dunið hafa yfir Spán er La Linea við hlið hins breska Gibraltar kletts

Einn er þó bærinn á Spáni sem kannski fellur ekki undir að vera ýkja ferðamannavænn og er meira að segja kallaður rassgat Spánar af sjálfum íbúunum. Það er smábærinn La Linea de la Concepción.

Fátt, ef nokkuð, hefur gengið þeim bænum í hag. Engu skiptir hvaða stórvirki bærinn gæti mögulega boðið ferðafólki upp á, og þau stórvirki núll talsins, að það myndi ekki breyta því að þær tugþúsundir ferðamanna sem aka þar framhjá koma ekki til með að stoppa þar og eyða peningum. Það stafar af því að allir eru þeir á leiðinni til Gibraltar, breska yfirráðasvæðisins á Spáni, sem er næsta stopp við La Linea.

Þar sem enginn er iðnaðurinn í bænum, ekkert að sjá markvert til að heilla ferðafólk og stærsti atvinnurekandinn er bærinn sjálfur sem hefur aðeins getað greitt laun óreglulega um árabil, hafa fjölmargir íbúar í neyð sinni þurft að hasla sér völl á sviði smygls og sölu falsaðs varnings á landamærunum. Aukinheldur hika þeir nokkrir ekki við að ræna þá fáu ferðamenn sem þó villast til La Linea á leið sinni til eða frá Gibraltar. Bera opinberar tölur spænsku lögreglunnar það með sér.

Slíkur bær er næstum þess virði að heimsækja. Ekki til að glotta yfir óförum bæjarbúa heldur til að kynnast spænskum bæ þar sem hörmulegt efnahagsástand Spánar má beinlínis sjá í greypt í andlitum og vonleysi í augum. Sorgarsaga í beinni.


One Response to “Þetta er rassgat Spánar”

  1. Þórunn Gunnarsdóttir,

    Ha ha ég elska Fararheill Þið eruð æði !