Algjör óþarfi að sýta það ef flug tefst lítið eitt. Svo lengi sem fólk er með réttindi sín á hreinu og sækir rétt sinn getur stutt töf þýtt feitan pening í veskið. Eins og til dæmis farþegar Icelandair frá London þennan daginn geta látið sig hlakka til.

Eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti af vef Leifsstöðvar er áætlunarvél Icelandair frá London seinnipart þessa dags töluvert á eftir áætlun. Sú átti að lenda 15.10 miðað við áætlun en rennur ekki upp að Leifsstöð fyrr en 18.33 í fyrsta lagi.

Allir sem lærðu einfaldan reikning í grunnskóla gera sér fljótt ljóst að það þýðir töf upp á þrjár stundir og 23 mínútur. Það aftur merkir að allir farþegar um borð eiga rétt á tafabótum af hendi Icelandair. Tafabótum sem nema tæpum 50 þúsund krónum miðað við gengi dagsins :

Sextán þúsund krónur á tímann fyrir farþega Icelandair frá London þennan daginn. Mynd Masaki Watanabe

Nú fer Heathrow í London aldrei í neinar bækur sem yndislegur áfangastaður en jafnvel þar er hægt að dunda sér í þrjár stundir án þess að missa vitglóruna. Ekki hvað síst ef verðlaunin fyrir leiðindin nema 50 þúsundum króna. Það gerir vel rúmlega sextán þúsund krónur á tímann og nema þú sért í vinnu fyrir þrotabú Kaupþings sáluga þá ertu væntanlega ekki með þá upphæð á tímann í þínu starfi.

Eins og Fararheill hefur oft og ítrekað bent á þá mun Icelandair ekki hjálpa þér á neinn máta að fá þitt fram. Þvert á móti eiginlega. Þú þarft því að hafa fyrir 50 kallinum með skeyti á Samgöngustofu og kröfu um þínar löggiltu bætur.

Láttu þig hafa það. Tómt rugl að hluthafar flugfélagsins fái meira í vasann af því að þú nenntir ekki….