Þarna úti er enginn skortur á aðilum sem bjóða gistingu og auglýsa að ekki þurfi að greiða fyrr en komið er á hótelið eða jafnvel að dvöl lokinni. Það eru mistök að nýta sér slíkt.

Ekki láta hótel koma aftur að þér. Greiddu gistingu við bókun ef þú kemur því við.
Ekki láta hótel koma aftur að þér. Greiddu gistingu við bókun ef þú kemur því við.

Sennilega er Booking.com það fyrirtæki sem mest auglýsir þennan möguleika. Eins og það sé eitthvað betra að greiða á staðnum en að greiða allt klabbið strax við bókun á netinu. Við hér hjá Fararheill viljum frekar vera stikkfrí þegar við mætum á hótelið og geta hoppað út í laug pronto í stað þess að hanga við innritun lon og don.

En kannski hafa sumir ekki efni á að staðgreiða gistingu með korti og því heillar að greiða á staðnum eða jafnvel síðar en það. En slíkt getur auðveldlega skapað ófyrirséð vandamál.

Vandamálið er að þegar þú greiðir ekki að fullu fyrirfram þá taka hótel gjarnan upp á því að læsa tiltekinni upphæð á kortinu sem þú gefur upp við bókun. Allt í góðu með það. Hótelin verða jú að tryggja að þau fái sitt og þú hlaupir ekki burt frá reikningum.

Gallinn hins vegar sá að sum hótel læsa mun hærri upphæð en gistingin kostar. Þar gert ráð fyrir að þú viljir nýta þér hótelbarinn eða jafnvel fá mat beint á hótelherbergið meðan á dvöl stendur og sumir gististaðirnir ganga jafnvel út frá því að einhverjar smá skemmdir verði á hótelherberginu. Þau læsa því mun hærri upphæð af kortinu en þú átt að greiða fyrir herbergið samkvæmt bókun.

Sem getur komið mörgum á óvart þegar kortinu er synjað á næsta veitingastað viku síðar. Þá fýkur í marga enda nóg innistæða fyrir öllu saman. Nema náttúrulega að hótelið hafi tímabundið tryggt sér feitari bita en þú vissir af. Og þetta kemur ekki fram á neinu yfirliti heldur.

Ágætt að hafa bak eyra og sérstaklega í sólarferðum. Best náttúrulega að greiða draslið um leið og þú bókar. Hótelið geta nefnilega aðeins læst upphæð í skamman tíma frá því að greiðsla berst. Fimm til sjö daga ef notað er debetkort en aldrei lengur en 30 daga með kreditkortum. Sé ferðin því mánuði eftir að þú bókar er staðan á kreditkortinu nákvæmlega sú sem þú heldur að hún sé. Enginn 50 þúsund kall aukalega á kantinum sem hótelið hefur farið fram á.