Ekki ein einasta stuna hefur heyrst frá samkeppnisyfirvöldum vegna kaupa Wow Air á stærstum hluta þess sem áður var Iceland Express þó liðinn sá sá frestur sem Samkeppniseftirlitið hefur samkvæmt lögum til að samþykkja eða hafna kaupunum.

Fyrir okkar leyti höldum við hjá Fararheill ekki niðri í okkur andanum vegna þessa enda myndi það enda með sársaukafullum dauða því eftirlit það er kennt er við samkeppni er áratugi að komast að einföldustu hlutum og þegar úrslit liggja loks fyrir skipta þau engu máli.

Töfin á niðurstöðu bendir þó til þess að menn þar á bæ hafi í það allra minnsta óskað viðbótargagna vegna kaupanna en Samkeppniseftirlitinu er óheimilt að samþykkja kaupin ef sýnt þykir að neytendur í landinu njóti verri kjara fyrir vikið.

Án þess að ritstjórn Fararheill sé lærð í heimi viðskipta liggur ljóst fyrir að tímarammi Samkeppniseftirlitsins til að hafna kaupunum er liðinn jafnvel þó sannað þyki að neytendur beri þar skarðan hlut frá borði. Með hverjum degi samtvinnast meira og meira rekstur þess sem áður var Iceland Express inn í rekstur Wow Air. Starfsfólki þess fyrrnefnda hefur þegar verið sagt upp og er farið og fyrrum eigandi sennilega ekki með marga seðla í vasa til að endurreisa flugfélag sitt né vilja til þess.

Fararheill veðjar því á að eftirlitsmenn veiti kaupunum blessun sína fyrr en síðar og hendi eflaust inn nokkrum skilyrðum svona svo fólk haldi nú að þeir hafi raunverulega verið að vinna vinnuna sína. Sem þeir geta náttúrulega ekki með þúsund mál í rannsókn og sirka þrjá starfsmenn. Við erum reiðubúinn að setja fimm þúsund krónur á línuna jafnvel þó fjárhættuspil séu bönnuð hérlendis.

Allt ofangreint var hins vegar ekki erindi þessa pistils heldur hitt, með fullri virðingu og hlýhug fyrir öllum þeim er misstu starf sitt þegar Pálmi Haraldsson ákvað að selja, að það er ein frábær ástæða fyrir að hvarf Pálma Haraldssonar, yfirmanna Iceland Express og þess fyrirtækis er hið besta mál.

Fyrirtækið Iceland Express kom nefninlega ömurlega fram við þá viðskiptavini sína sem höfðu yfir einhverju að kvarta. Alla þá sem sættu sig ekki við gríðarlegar tafir, seinkanir eða niðurfellingu flugs án þess að malda í móinn og krefjast skaðabóta.

Flugmálastofnun fær til sín kvartanir þeirra sem þekkja rétt farþega í flugi og fengu enga úrlausn sinna mála hjá þeim félögum er stunda flug til og frá landinu. Séu skoðaðar kærur á fyrirtæki síðustu tveggja ára, 2011 og 2012, er Iceland Express óumdeildur sigurvegari í leiðindum. Alls tók Flugmálastofnun fyrir 117 kærur á þessum tveimur árum hingað til. Af þeim beindust 89 að Iceland Express. Það er 76 prósent allra kvartana sem stofnuninni hafa borist á 24 mánuðum.

Það kann að hljóma sjokkerandi en ballið er rétt að byrja og feita konan enn að ræskja sig. Iceland Express tapaði nefninlega hverju einasta máli sem á borð Flugmálastjórnar kom þetta tímabil. Í öllum tilfellum þurfti fyrirtækið að greiða bætur.

Í mörgum þessara tilfella svaraði fyrirtækið aldrei fyrirspurn Flugmálastjórnar vegna kæranna og var því sjálfdæmt. Í öðrum tilfellum hafði fyrirtækið frammi mótmæli en hafði aldrei erindi sem erfiði. Allra verst er að þetta tímabil, samkvæmt upplýsingum Fararheill frá Innanríkisráðuneytinu, kærði Iceland Express úrskurði Flugmálastjórnar alls 20 sinnum og sagði viðskiptavini sína ljúga en þó ekki með þeim orðum.

Bréf Innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fararheill vegna þessa leiðir í ljós að af þessum 20 kærum er sautján lokið með úrskurði og tapaði Iceland Express þeim öllum. Þremur málum er ólokið.

Við endurtökum: Iceland Express hefur tapað hverju einasta kærumáli á hendur fyrirtækinu um tveggja ára skeið.

Með hliðsjón af því að 55 prósent þátttakenda í vefkönnun Fararheill fyrir skömmu sögðust ekki vita af því að hægt væri að krefjast bóta vegna tafa og seinkana flugfélaga má slá föstu að mörg hundruð manns og jafnvel þúsundir hafi aldrei leitað réttar síns eins og þeir rúmlega hundrað sem það gerðu og höfðu betur.

Að mati Fararheill er barasta jákvætt að fyrirtæki sem hundsar viðskiptavini sína sem verða fyrir tjóni vegna tafa eða seinkana og gengur svo langt að kalla suma þeirra lygara, en þó ekki með þeim orðum, skuli verið fokið út í hafsauga.

Og þá er að opna kampavínið…