Okkar ylhýra Samkeppniseftirlit, sem illu heilli er næsta gagnslaust neytendum í landinu sökum manneklu, sendi frá sér mikla skýrslu fyrir skömmu þar sem niðurstaðan var að yfirtaka Wow Air á Iceland Express síðastliðið haust væri barasta fínt mál í alla staði og hefði engin neikvæð áhrif á samkeppni. En er það virkilega raunin?

Engin samkeppni lengur á flugleiðinni til Alicante og verðlag hækkað verulega á skömmum tíma
Engin samkeppni lengur á flugleiðinni til Alicante og verðlag hækkað verulega á skömmum tíma

Við rúlluðum okkur aðeins aftur í söguna og bárum saman nokkur verð sem Íslendingum stóð til boða með Wow Air og Iceland Express áður en hið síðarnefnda var jarðsungið annars vegar og svo þau verð sem bjóðast í dag. Af þeim skal ekki fullyrt að samkeppni hafi minnkað en mikil ósköp eru líkurnar miklar.

Hvað er til dæmis langt síðar Wow Air auglýsti flug aðra leiðina til Alicante á Spáni fyrir 14.900 krónur? Slíkt var í boði hjá fyrirtækinu allan októbermánuð síðasta haust meðan Iceland Express var enn og hét. Vissulega utan háannatíma og vissulega sérstakt tilboð en heilum tíu þúsund krónum ódýrara en lægsta verð sem félagið býður upp á nú. Gildir þá einu hversu langt fram árið er litið á síðu Wow.

Þetta eru tíu þúsund krónur á hvern legg sem merkir að Wow Air tekur nú 20 þúsund krónum meira fyrir að flytja fólk fram og tilbaka en það gerði þegar best lét og samkeppni var til staðar. Höfum í huga að Icelandair býður ekki flug til þessa vinsæla áfangastaðar og samkeppnin því engin. Verðmunur í prósentum talið nemur hvorki meira né minna en rúmlega 60 prósent.

Stærstu útgjaldaliðir Wow á tímabilinu, eldsneyti og laun, hafa varla hækkað sem þessu nemur enda verð á flugeldsneyti farið mjög lækkandi undanfarið. Hvaða skýring er þá eftir?

Fararheill mun halda áfram að benda á miklar verðhækkanir í flugi næstu vikur því við erum ekki í vafa um að ÖLL samkeppni er af hinu góða ólíkt því sem Samkeppniseftirlitið kemst að.