Við hér hjá ritstjórn Fararheill erum jafnan alvarlega stutt í spuna við samferðafélaga okkar að flugi loknu við töskufæribandið. Ekki svo að skilja að okkur leiðist innantómt hjal við mann og annan. Jú reyndar, en það pirrar okkur meira að vera viðbjóðslega andfúl.

Mekka andfýlu af ýmsu tagi eru komusalir í flugstöðvum. Mynd YouTube
Mekka andfýlu af ýmsu tagi eru komusalir í flugstöðvum. Mynd YouTube

Vitgrannur lesandi sem aldrei hefur ferðast gæti fussað og sveiað á þessu stigi. Hvers konar afdalafólk sem aldrei hefur heyrt talað um tannbursta skrifar á Fararheill.is?

En staðreyndin er að það er ekki aðeins fólkið á Fararheill sem er andfúlt eftir langflug eftir himinskautum. Það eru ALLIR og fyrir því er góð ástæða.

Hún sú að í flugi hægist stórkostlega á allri líkamsstarfsemi farþega. Ekki aðeins sitjum við að mestu grafkyrr í langan tíma heldur og er andrúmsloft í farþegavélum ekki upp á marga fiska. Þar er til dæmis rakastig margfalt mun minna en á jörðu niðri.

Velflest kerfi líkamans keyra sig niður við þær kringumstæður og þar með talin munnvatnsframleiðsla. Sem hefur í för með sér að bakteríur og vibbi getur auðveldar leikið lausum halda og þá er munnurinn aðal partístaðurinn enda þar yfirleitt að finna leifar af einhverju góðgæti sem við fengum okkur fyrir brottför eða jafnvel af flugvélamatnum.

Bakteríurnar leysa frá sér ýmis efni sem eru miður smekkleg og það eru þau efni sem paufast út þegar við opnum kjaftinn í flugi og að flugi loknu.

Jú, víst er hægt að halda andfýlu niðri og það til dæmis með því að geyma bursta í handfarangurstöskunni og skoppast á klósettið reglulega. En þá er komið annað vandamál. Vatnið í farþegaþotum er langt frá því að vera mjög heilsusamlegt og víðsfjarri því að vera gott. Svo eru klósettin mörg orðin heldur útbíuð og vibbaleg þegar líða fer á flug.

Samt engin ástæða til að fara á taugum. Ekki er vitað opinberlega um nein dauðsföll af völdum andremmu 🙂