Rík, fátæk, hvít, svört, bleik, konur og karlmenn. Öll þekkjum við líklega að hafa, æpandi af svengd eða heltekin af þorsta, opnað mínibar á hótelherbergi til að sefa hungur eða væta kverkar en lokað barnum snarlega aftur þegar í ljós kom að 50 gramma hnetupokinn kostar 1600 krónur, litli bjórinn vel yfir þúsund kall og meira að segja lítil Pringles dolla skjagar í árslaun verkamanns í Bangladesh.

Kannast þú við óheyrilega verðlagningu á minibörum á hótelum? Mynd Matthew Purdy
Kannast þú við óheyrilega verðlagningu á minibörum á hótelum? Mynd Matthew Purdy

Við höfum líklega flest líka hugsað það sama við þessar aðstæður. Ævintýraleg græðgi hótelanna á sér enga hliðstæðu, allavega þangað til fólk kaupir samloku í Leifsstöð.

En reyndin er ekki endilega græðgi hótelanna þó eflaust sé það hluti ástæðunnar. Ástæðan er að stærstum hluta sú að það eru svo margir gestir sem nota barina án þess að greiða fyrir hlutina. Harðneita svo öllu við brottför og sleppa með skrekkinn. Það er semsagt bullandi tap á mínibörum á velflestum hótelum og til að vega upp þetta tap er verðið hækkað á vörunum.

Það er sú ástæða sem forstjórar Hilton og Marriott gáfu í viðtali í The Economic Club og Reuters skýrir frá. Þar kemur fram að allt að fjórðungur gesta noti mínibarina en neiti svo að kannast við það við brottför. Þeir kollegar vildu meina að jafnvel lítil Pringles dós á þúsund krónur nægði ekki til að dekka það tap sem hótelin verða fyrir vegna þessa.

Þetta verður að kallast trúanlegt því það eru alltaf þessu fáu skemmdu epli sem eyðileggja fyrir öllum öðrum. Hugsi fólk út í það er engin ástæða af hálfu hótela til að okra á smávarningi í mínibörum. Þvert á móti er það þeim í hag að bjóða vörurnar á sem lægstu verði til að tæla viðskiptavini til að koma aftur.

Leave a Reply