Allir hafa gaman að Fiskideginum á Dalvík og fáum leiðist Food&Fun matarhátíðin í Reykjavík. Í Hong Kong í Kína rúlla þeir þessu tvennu saman eins og smjördegi utan um nautakjöt og öllum er boðið (ef þeir borga.)

Það kostar inn á helstu matarhátíð Hong Kong en það er tómt klink miðað við hvað þú færð fyrir snúðinn.

Stærsta matarhátíð þeirrar merkilegu borgar sem nefnist Hong Kong fer fram árlega í marsmánuði og þar á bæ, í stíl við háhýsi sem ná til tunglsins, gera menn ekkert með hangandi hendi.

Hún heitir Taste of Hong Kong en gæti eins heitið Taste of the World. Hér meinum við stærstu og vinsælustu matarhátíð þessarar stórborgar. Hún er bókstaflega blanda af Fiskideginum og Food&Fun því hér setja menn upp hundruðir matartjalda á hafnarbakkanum og í hverju og einu tjaldi er kokkur eða kokkar frá helstu veitingastöðum borgarinnar að búa til sitt allra besta.

Hong Kong er stórborg í öllu tilliti og vellauðugir menn og fyrirtæki eiga flest betri veitingahús borgarinnar. Þeir treysta auðvitað ekki hverjum sem er fyrir hlutunum og því er það hér í borg sem finna má flesta matreiðslumenn með Michelin-stjörnur í veröldinni allri. Engir þeirra veigra sér við að matreiða 100 prósent príma mat fyrir þúsundir í einu á Taste of Hong Kong.

Ólíkt því sem gerist á Dalvík þarf að greiða aðgangseyri hafi smekkfólk áhuga að prófa einhverja af þeim þúsundum rétta sem hér finnast yfir hátíðina. En ólíkt Food&Fun þar sem stök máltíð er það dýr að skipta þarf greiðslum í tólf mánuði fyrir meðalmanninn ættu flestir Íslendingar, og aðrir, að ráða við aðgangseyrinn að Taste of Hong Kong. Þetta árið kostar aðgangur heilar átján hundruð krónur íslenskar eða 120 innlenda dollara. Á allra heitustu stöðunum þarf að punga út nettri viðbót fyrir eitthvað matarkyns en óhætt að segja að fyrir íslenskan fimm þúsund kall er hægt að prófa hina bestu rétti á flestum af hinum þrjú hundruð stöðum sem hér finnast.

Það er príma díll á hvaða tungumáli sem er 🙂