Skip to main content

A lltaf lærist eitthvað nýtt. Nú geta flugfarþegar hætt að blóta kokkum flugeldhúsa næst þegar splæst er í mat í flugi og allt þykir verra en á Texas-borgurum í denn. Bragðskynið breytist nefninlega í háloftunum.

Þeim fer fækkandi sem fá sér í gogginn um borð í farþegaþotum þó ekki sé nema vegna þess að þeim fækkar óðum flugfélögunum sem upp á mat bjóða eins og áður var. Jafnvel sá matur sem fæst bragðast merkilega þreyttur að margra mati en nú hafa vísindin fundið út nákvæmlega hvers vegna það er. Bragðskyn fólks breytist í háloftunum.

Hávaði í háloftunum breytir bragðskyni manna.

Hávaði í háloftunum breytir bragðskyni manna.

Frá þessu er greint í ritinu Food Quality & Preference en nokkrir vísindamenn sem undruðust hvers vegna flugvélamatur bragðaðist ávallt illa eða miðlungs í besta falli ákváðu að rannsaka málið.

Í ljós kemur að bragðskyn fólks breytist bæði við hæð og ekki síður við linnulausan hávaða eins og flugvéladrunur. Sterkur vel kryddaður matur veikist mikið og sæt efni þynnast út.

Sem ætti ef allt væri eðlilegt að þýða að maturinn fengist á helmings afslætti enda helmingi bragðlausari. En það stangast á við gróðasjónarmið flugfélaganna að vera sanngjörn.