Sama hvað sagt er um Finna. Þeir eru og verða alltaf óútreiknanlegir og sérvitrir og þess vegna er alltaf gaman að sækja þá heim. Ekki hvað síst í héraðinu Sonkajärvi.

Það er ekki lítið tekið á því á heimsmeistaramótinu í konuburði í Finnlandi. Mynd Vi.lak
Það er ekki lítið tekið á því á heimsmeistaramótinu í konuburði í Finnlandi. Mynd Vi.lak

Það hérað er frægt fyrir einn hlut og það langt út fyrir landsteinanna: heimsmeistarakeppni í konuburði.

Konuburður er mikil skemmtan og hefur í för með sér eins og nafnið gefur til kynna að karlmenn bera konur sínar ákveðna leið í keppni við aðra og klukkuna.

Viðburðurinn sem á rætur að rekja langt aftur í aldir hefur náð miklum vinsældum víða í kjölfar þess að viðburðurinn í Sonkajärven vakti athygli. Finnast nú slíkar keppnir í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum svo dæmi séu tekin en hvergi annars staðar hafa menn þó einhliða stimplað sín mót heimsmeistaramót eins og Finnarnir. Það hefur haft sitt að segja því árið 2014 voru keppendur hér frá 18 ríkjum og hátt í níu þúsund áhorfendur mættu á staðinn.

Kannski skemmir ekki fyrir að verðlaunin á þessu heimsmeistaramóti eru eilítið frábrugðin því sem gengur og gerist og hér skiptir máli hversu þungar byrðar mennirnir bera í keppninni því sigurvegarinn fer heim með eins mikinn bjór og kona hans vegur. Til nokkurs að vinna sem sagt nema að eiginkonan sé anorexíusjúklingur. Þá er eftir litlu að slægjast.

Meðan á keppninni stendur er þó meira í boði en skemmtunin ein. Hér er rekinn markaður og mikill dansleikur er haldinn í kjölfarið þar sem oftar en ekki sigurvegarinn klárar bjórinn sem hann vann en verðlaunin skiptast nokkuð bróðurlega á milli fólks.

Keppnin, eukonkannon á frummálinu, fer árlega fram í júlímánuði en dagsetningar misjafnar. Nánar hér.