Það þarf sennilega að ferðast vestur um haf til að kynnast þessu fyrirbæri því við þekkjum engin dæmi um þau Evrópumegin. Nánar tiltekið þegar hótel og gististaðir bæta ýmsum óvæntum aukagjöldum ofan á auglýst verð á gistingu og krefjast greiðslu á þeim gjöldum þegar fólk tékkar sig út.

Vegas hvað verst. Hótel hér bæta ofan á hótelverð allt að 25$ per dag ofan á gistiverð í þóknun. Mynd Werner Kunz
Vegas hvað verst. Hótel hér bæta ofan á hótelverð allt að 28$ per dag ofan á gistiverð í þóknun. Mynd Werner Kunz

Hér er ekki verið að tala um greiðslu fyrir notkun á hótelbarnum eða fyrir hreinsun á kjól eða skyrtu sem eru aukagjöld sem fólk almennt veit að er ekki ókeypis á hótelum heimsins.

Þvert á móti eru þetta falin aukagjöld og geta kallast hvað sem er, frá öryggisgjaldi til gistigjalds og sum hótel kalla þetta notkunargjald og enn önnur þóknun. Öll eiga það sameiginlegt að þú veist ekki af þeim fyrr en komið er að brottför. Þau eru ekki sjáanleg í auglýsingum, engar upplýsingar á hótelherbergjum og slíkt er, merkilegt nokk, fullkomlega löglegt líka.

Gjöldin koma sannarlega við veskið. Lágmarks þóknun hjá þeim hótelum sem þetta gera, sem eru velflest stærri hótel vestanhafs, eru tæpir 4 dollarar á nótt eða rúmar 600 krónur eða svo. Hæstu gjöldin finnast svo á hótelum í Las Vegas þar sem aukagjald fer hæst í 28 dollara á nótt.

Hugmyndin að þessum gjöldum er að gestir greiði þóknun fyrir allt það sem boðið er upp á burtséð frá því hvort gestir nota aðstöðuna eða þjónustuna. Það eru þægindin við að hafa tennisvöll í bakgarðinum eða upphitaða sundlaug sem gjaldið nær yfir.

Sem sagt langsótt og hreint ótrúlegt að slíkt sé leyfilegt og kemur ekki á óvart að kapítalistarnir vestanhafs hafi fundið upp á þessari ókeypis gullnámu og noti óspart. Þeim nefninlega slétt sama um annað en að kreista hvern eyri upp úr eigin viðskiptavinum.

En góðu heilli hafa uppátækjasamir drengir opnað sérstaka vefsíðu þar sem slík aukagjöld hótela vestanhafs eru tíunduð í þaula. Þar má fletta upp þeim hótelum sem til stendur að gista á og kann hvort og þá hve há gjöld þeirra eru. Um að gera að skoða það hér.