Áhugasamir einstaklingar þarna úti finna ekkert flug með Icelandair til hinnar sólríku Tenerife á Kanaríeyjum á vef þess flugfélags fyrir jólin. En skoppi fólk yfir á vef ferðaskrifstofunnar Vita eru þar í boði ferðir með Icelandair og á næstum nákvæmlega sama verði og Wow Air býður.

Meðan jólastressið og veðurofsi fer með landann heima dúllum við okkur bara á ströndinni með margarítu eða tvær 🙂

Okkar ástkæra Icelandair sem lífeyrissjóðir landsmanna hafa haldið á floti hin síðari ár er ekki mikið að bjóða landanum túra til þeirra staða sem við þráum mest. Okkur vitandi hefur flugfélagið aldrei boðið upp á flug til Kanaríeyja nema sem sérferðir hjá tilteknum ferðaskrifstofum. Hingað til hafa bæði Wow Air og Primera Air nýtt sér það til að okra á flugi fram og aftur til þessara yndislegu áfangastaða.

En slæmt gengi á hlutabréfamörkuðum hefur vakið risann af djúpum svefni. Þó enn sé ekki í boði að kaupa flug beint til Kanaríeyja með Icelandair er vel hægt að fljúga þangað með vélum Icelandair gegnum ferðaskrifstofuna Vita og samkvæmt okkar stikkprufum á verði sem er vel samkeppnishæft við það sem Wow Air býður.

Sem dæmi um þetta má finna flug fram og aftur með Wow Air 5. – 23. desember með innritaða tösku meðferðis niður í 49.991 krónu þegar þetta er skrifað eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti.

Alls ekkert hræðilegt verð og frábær tími til að ná sér í brúnku á kropp, vítamín í æð og versla jólagjafir á Costco-prís án þess að versla við Costco áður en setja þarf jólasteikina í ofninn.

En þú kannski þorir ekki að dvelja í ljúfheitum fram á síðustu stundu. Þá er óvitlaust að skáskjóta þér á vef Vita en þar má finna á þessu augnabliki flug fram og aftur 6. – 21. desember með Icelandair niður í 49.900 krónur með innritaðri tösku.

Ferðaskrifstofan er sem sagt að bjóða sama verð og lággjaldaflugfélagið Wow Air til eins heitasta áfangastaðar Íslendinga á allra besta tíma!!!

Flott hjá Vita. Það veitir aldrei af samkeppni. En var ekki hægt að bjóða BETUR en Wow Air?

En bíðum aðeins við gott fólk. Það er jú aldrei svo að ekki borgi sig að kanna verð hjá ÖLLUM aðilum sem fljúga til tiltekins staðar frá farsæla Fróni. Það tveggja mínútna langa tékk leiðir í ljós að flugfélagið Primera Air býður einnig flug fyrir jólin til Tenerife og merkilegt nokk er það flugfélag að bjóða lægsta verðið. Í það minnsta ef litið er til flugs 6. – 20. desember. Örlítið styttra dúllerí en verðið með innritaðri tösku er líka aðeins lægra eða 42.498 krónur á kjaft. Tveir saman spara sér rúmlega tólf þúsund krónur hjá Primera Air umfram Vita eða Wow.

Sjáumst á Tene 😉