Skip to main content

Ferðaskrifstofa Wow Air, Wow Ferðir, er formlega komin á haugana. Allar pakkaferðir flugfélagsins að frátaldri lokaferðinni í nóvember finnast nú eingöngu hjá Gaman ferðum.

Wow Ferðir heyra sögunni til. Skjáskot

Wow Ferðir heyra sögunni til. Skjáskot

Það kemur ekki á óvart. Eigandi Wow Air, Skúli Mogensen, keypti helmingshlut í Gaman ferðum fyrir skömmu og vill auðvitað fá pening sinn til baka í feitum arðgreiðslum.

Né heldur kemur á óvart að Skúli hafi sent Wow Ferðir á haugana. Margt var undarlegt við það dæmi frá upphafi eins og við reyndar fjölluðum um vorið 2012 eins og lesa má um hér. Ferðir Wow Ferða voru sjaldan mjög Wow og aldrei var neitt sértilboð þar á pari við það sem gerðist reglulega hjá móðurfélaginu sjálfu.

Steininn tók eiginlega úr þegar greiða þurfti töskugjald Wow Air í pakkaferðum Wow Ferða eftir að flugfélagið tók upp farangursgjald síðla árs 2012. Það er nefninlega svo að fólk kaupir pakkaferðir til þess að fá allt í einum pakka. Ekki til að greiða svo aukalega fyrir hitt og þetta.

Góðu heilli hafa Gaman menn breytt þessu til hins betra. Nú þarf enginn sem ætlar í frí með Gaman ferðum almennt að greiða aukagjald fyrir töskudruslu. Ekki þar fyrir að gjaldið sé ekki til staðar en nú er það falið inni í heildarverðinu. Sem er bissness 101.