Skip to main content
Tíðindi

Sólarhringur Sumarferða aðeins dýrari

  19/01/2013No Comments

Síðustu árin hefur verðlag á ferðalögum út í heim hækkað nokkuð duglega víðast hvar og það sama gildir um flug til og frá landinu. Með tilliti til þess verður að gefa Plúsferðum eins og góðan þumalputta fyrir að hækka verð á svokölluðum Sólarhring aðeins um tæp tvö prósent á milli ára.

Hluti þeirra tilboða sem í boði verða í einn sólarhring hjá ferðaskrifstofunni Sumarferðir á mánudaginn kemur

Umræddur Sólarhringur er á mánudaginn kemur, 21. janúar, en þá selur ferðaskrifstofan sumarferðir sínar á lægra verði en ella og getur munað töluverðum upphæðum frá hefðbundnu verði eins og Fararheill hefur ítrekað fjallað um. Fjögurra manna fjölskyldan sem vill aðeins njóta sólar og strandlífs á sæmilegum hótelum getur sparað sér tugi þúsunda með því að kaupa á mánudag en ekki síðar.

Nett tékk af hálfu ritstjórnar leiðir í ljós að Sumarferðir hafa haldið aftur af sér í verðlagningu sem er vel af sér vikið því íslenska krónan er meiri ræfill nú en hún var á sama tíma fyrir ári gagnvart evru.

Athugun leiðir í ljós að miðað við verðdæmi á Sólarhring sínum sem ferðaskrifstofan gefur á heimasíðu sinni er nú komist í vikuferð til Tenerife á íbúðahótelinu Parque de las Americas ódýrast fyrir 85.700 krónur á mann og eins og alltaf er miðað við fjórar manneskjur. Samanlagður kostnaður slíkrar fjölskyldu því 342.800 samtals.

Fyrir tæpu ári síðan var ferðaskrifstofan með sams konar Sólarhring á mikið til nákvæmlega sömu staði. Þá komst fjögurra manna fjölskyldan á sama stað í vikutíma á sama hóteli ódýrast fyrir 84.062 krónur á mann. Samtals því 336.248 krónur fyrir fjölskylduna alla.

Það gerir rétt tæplega tveggja prósenta hækkun milli ára og verður að teljast allgott.

Heimasíða Sumarferða hér.