Skip to main content

B arceloneta heitir borgarhverfið næst ströndinni í Barcelóna en þar hefur gríðarmikil uppbygging átt sér stað síðastliðna tvo áratugi og hverfið á þeim tíma orðið eitt hið vinsælasta meðal heimamanna og gesta. Aðalaðdráttaraflið er ströndin sjálf en þar er einnig sædýrasafn borgarinnar sem vel er þess virði að skoða.

Ýmsar skepnur hafsins má sjá í nærmynd í sædýrasafninu

Ýmsar skepnur hafsins má sjá í nærmynd í sædýrasafninu

Safnið er á nokkrum hæðum með ýmis konar leiktæki og fróðleik til handa yngstu kynslóðinni um allt er viðkemur hafinu og dýra- og plöntulífi þar.

Þar er einnig hægt að fá sér snæðing en safnið er hluti af stærri miðstöð verslana og kvikmyndahúss og er þar aragrúi annarra veitingastaða.

Aðalatriðið er þó vafalítið safnið sjálft sem er nánast á heimsmælikvarða og má líta augum fleiri hundruð mismunandi tegundir sjávardýra og planta. Allt frá litríkum kóröllum til hákarla, risaskata og ála.

Fyrir þá allra hörðustu er hægt að fá að synda með hákörlunum á fyrirfram ákveðnum tímum en aðeins þó sé viðkomandi með kafararéttindi og gerð er krafa um að sækja stutt námskeið áður en að köfuninni kemur. Er slíkt í boði á miðvikudögum og um helgar.

Heimasíða safnsins hér en þar má finna upplýsingar á ýmsum tungumálum hvort og þá hvenær sérstakir viðburðir eru á dagskrá.

PS: ef þú vilt heimsækja fimm stjörnu, heimsklassa sædýrasafn er málið að kíkja til nágrannaborgarinnar Valensíu. Sædýrasafn þeirrar borgar er ótrúlega flott.