Skip to main content

Þau ykkar sem eydduð peningum í verslunum í Bretlandi þann tólfta júlí síðastliðinn greidduð litlar 212 krónur plús álag fyrir hvert einasta pund sem forgörðum fór. Síðan þá hefur krónugreyið verið að krafsa nokkuð duglega í líkkistulokið en nú hefur pundið aftur tekið kipp upp á við.

Virði Bretadrottningar og kumpána á bresku seðlunum er að hækka duglega á kostnað krónunnar

Virði Bretadrottningar og kumpána á bresku seðlunum er að hækka duglega á kostnað krónunnar

Þegar þetta er skrifað hefur hvert breskt pund hækkað um átta krónur gagnvart krónunni íslensku síðustu 60 daga. Á mannamáli þýðir það að flotta peysan í H&M í London sem kostaði 3.050 krónur í byrjun september kostar nú tæpar 3.200 krónur.

Sem er auðvitað bara hlægilegt klink og ekkert til að stressa sig yfir.

En safnast þegar saman kemur og þar sem þorri landans maxar kreditkortið í botn í Bretlandi þá getur þessi litla hækkun pundsins sannarlega lyft augabrúnum þegar reikningurinn kemur inn á eldhúsborðið. Ekki síst þar sem kreditkortafyrirtækin bæta ofan á allt saman drjúgri prósentu til að greiða sínu fólki þrátt fyrir að þú hafir þegar greitt duglegt árgjald fyrir notkun á kortinu.

Ágætt ráð fyrir forsjála einstaklinga að fylgjast grannt með gengi pundsins gagnvart krónu. Krónan flöktir meira en fyrsta ljósapera Edisons þessi dægrin og sé verið að spreða peningum í Bretlandi er það flökt fljótt að borga sig. Eða ekki.