Skip to main content

Primera Air heyrir sögunni til, Wow Air í gjörgæslu og fjölmörg önnur erlend flugfélög berjast í bökkum þessi dægrin. Þar á meðal ein skærasta stjarnan meðal lággjaldaflugfélaga: Norwegian.

Hart í ári hjá lággjaldaflugfélaginu Norwegian ef marka má norska fréttamiðla.

Norski fjölmiðillinn Dagens Næringsliv greinir frá því að lággjaldaflugfélagið Norwegian standi á gljúfurbarmi í efnahagslegu tilliti. Flugfélagið hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum síðustu misserin og það á versta tíma í ofanálag við gríðarlega fjárfestingu í nýjum rellum.

Gengur miðillinn svo langt að segja að Norwegian þurfi milljarða króna inn í reksturinn á næstu DÖGUM til að halda sjó.

Slæmar fréttir ef rétt reynist. Ólíkt íslensku flugfélögunum hefur norska lággjaldaflugfélagið boðið landanum upp á ódýra túra til Alicante, Róm og Madríd síðustu misserin og samkvæmt heimildum Fararheill hefur sætanýting frá Íslandi verið hátt í 90%. Sem þykir með því betra sem gerist og er hrein niðurlæging fyrir flugfélög Íslands. Þurfti virkilega erlent flugfélag til að bjóða okkur flug til vinsælla staða á verði sem setur engan á hausinn?

Illu heilli skipta viðskipti Íslendinga litlu í heildarmyndinni. Norwegian hefur, svipað og Wow Air, breitt út vængi sína til hinna ólíklegustu staða og oftar en ekki langleiðir sem illa borga sig fyrir lággjaldaflugfélög. Þú ert jú ekki að fljúga í tíu plús klukkustundir í níðþröngu sætisrými án matar og vatns án þess að það komi alvarlega niður á heilsunni.

Ef grein DN er rétt gæti vel verið að norska flugfélagið skeri duglega niður á næstunni og það líklega fyrirvaralítið. Ekki ólíklegt að túrar til og frá Íslandi lendi undir þeim hníf. Og þvílík synd ef það verður raunin…