Skip to main content

Fyrir rúmum mánuði síðan sögðum við ykkur frá svaðilförum Íslendinga sem ætluðu heim með flugfélaginu Primera Air frá Tyrklandi í júní eftir dvöl þar. Heimflug sem svo tafðist í tæpan sólarhring með tilheyrandi vandræðum vegna vélarbilunar.

Bætur fráleitar í fyrstu en það breyttist einhverra hluta vegna hjá Primera Air þegar á leið.

Bætur fráleitar í fyrstu en það breyttist einhverra hluta vegna hjá Primera Air þegar á leið.

Mikla athygli vakti að í fyrstu atrennu hafði flugfélagið ekki minnsta áhuga að koma til móts við þá farþega sem lentu illa í þessari töf sem lesa má um hér. Bréfum frá viðskiptavinum þar sem farið var fram á einhverjar bætur var alfarið hafnað enda vélarbilun óvæntar aðstæður.

Hvort sem umfjöllun Fararheill um málið hafði eitthvað að segja eður ei þá breyttist tónninn aðeins í kjölfarið og skömmu seinna fengu farþegar í umræddri ferð þau skilaboð að hver og einn fengi 250 evrur greiddar sem bætur fyrir vandræðin sem töfin olli. Áður hafði flugfélagið tryggt gistingu og morgunverð eins og lög kveða á um.

Miðað við gengi dagsins eru 250 evrur rúmar 38 þúsund krónur og ekki kannski slæmar bætur fyrir sólarhringstöf á erlendri grundu. Eftir því sem Fararheill kemst næst hafa langflestir farþeganna þegið þær bætur og þannig fyrirgert rétti sínum ef í ljós kemur að farþegarnir eiga rétt á mun hærri bótum. Bætur, ef þær dæmast réttmætar, fara nefninlega eftir lengd flugs og milli Keflavíkur og Antalya í Tyrklandi eru 4.600 kílómetrar. Sem merkir að þeir sem í fluginu voru og fara með sitt mál alla leið og vinna eiga að fá 600 evrur í sinn hlut. Það eru tæpar 92 þúsund krónur.

Einhver slík mál eru nú hjá Flugmálastjórn sem tekur afstöðu til þess til eða frá. Fararheill mun fylgjast með þeirri niðurstöðu. Primera Air hefur ekki svarað spurningum okkar vegna þessa máls. Til dæmis hvers vegna í fyrstu félagið hafnaði öllum bótakröfum en gaf svo eftir með það. Það þykir Fararheill benda til að félagið viti upp á sig sökina.