Það allra versta við ferðalög erlendis er kostnaðurinn, bið og tafir. Allavega ef mark er takandi á þeim 623 aðilum sem þátt tóku í síðustu vefkönnun Fararheill.

Við erum nokkuð heppin hér heima miðað við lætin á mörgum flugvöllum erlendis.
Við erum nokkuð heppin hér heima miðað við lætin á mörgum flugvöllum erlendis.

Lék ritstjórn forvitni að vita hvað væri það versta við ferðalög erlendis að mati lesenda. Voru gefnir fjórir möguleikar; kostnaður, flugvellir, bið og tafir eða annað.

Reyndust nákvæmlega jafnmargir, 43 prósent, á þeirri skoðun að það allra versta við ferðalög væri kostnaður annars vegar og bið og tafir ýmis konar hins vegar.

Fjórtán prósent settu sitt atkvæði á flugvelli sem verstu upplifunina við ferðalög erlendis. Enginn tiltók annað sem í taugarnar færi.

Þó niðurstaðan sé alls ekki vísindaleg á neinn hátt er hún í takti við aðrar kannanir Fararheill sem sýna aftur og aftur að kostnaður er yfirleitt númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að ferðalögum erlendis. Ekki skal neitt fullyrt en líklega má skrifa það að einhverju leyti á bága fjárhagsstöðu margra en flug og ferðalög hafa hækkað töluvert í verði hérlendis síðustu ár.