Það má vera að innlendar ferðaskrifstofur séu einfaldlega ekki klárar með vetrardagskrá sína en afar lítið fer fyrir skipulögðum ferðum til Asíu.

Töluverð umferð og læti eru jafnan í asískum stórborgum og Ho Chi Minh þar engin undantekning. Mynd Jens Aarstein Holm
Töluverð umferð og læti eru jafnan í asískum stórborgum og Ho Chi Minh þar engin undantekning. Mynd Jens Aarstein Holm

Úrval Útsýn er að bjóða eina pakkaferð til Tælands og ferðaskrifstofan Oríental með nokkra sérhæfða pakka líka en þá er það að mestu upptalið sem finnst svona næstu misserin.

Ferð Úrval Útsýn er nokkuð safarík. Þvælst um Tæland í þrettán daga ferð og margt innifalið. Almennt vel skipulögð ferð að okkar mati. En hængurinn er kostnaðurinn. Sú ferð kostar manninn 498 þúsund eða rétt tæp milljón króna fyrir par.

Það verður að segjast að ritstjórn Fararheill skilur ekki alveg þetta háa verð. Flug alla leiðina til Bangkok fæst yfirleitt kringum hundrað þúsund á mann eða rúmlega það. Hótelkostnaður og einhver matur með kostar engan helling í Tælandi og allra síst sé bókað með fyrirvara eins og hægt er að ganga úr skugga um á okkar eigin hótelbókunarvél hér að neðan. Innanlandsflug er sömuleiðis ekki mjög dýrt þó reyndar stöku skoðunarferðir kosti sitt auk leigu á rútu undir mannskapinn.

Góðu heilli eru fjölmargir aðilar í Evrópu að bjóða safaríkar Asíuferðir á mun lægra verði. Ein slík er þýska ferðaskrifstofan Post Reisen sem er nú að bjóða sextán daga ferð til Tælands, Kambódíu og Víetnam í nóvember og febrúar. Heilmikið kjöt á beinum í þessari ferð eins og lesa má um hér (á þýsku) en kannski aðalatriðið er þó að ferðin kostar hjón eða par samtals 530 þúsund krónur alls frá Berlín. Smyrjum ofan á það 70 þúsund krónum í flug héðan til Berlínar og heim aftur að ferð lokinni og súpergóð Asíuferð er ykkar fyrir 600 þúsund krónur. Það er 60% lægra verð en Úrval Útsýn býður á sinni Tælandsferð og er sú þýska þó nokkuð betri eins og lesa má um hér.

Svo verður fólk að gera upp við sig hvort ferð með þýskum fararstjóra og þýsku ferðafólki er verri eða betri kostur en með íslenskum fararstjóra og fólki.