Puttaferðalangar hafa oftar en ekki verið litnir hornauga hér á landi en það er ekki raunin annars staðar í Evrópu.

Víða þykir það sjálfsagt mál að húkka far hingað og þangað um álfuna. Mynd Leo Reynolds
Víða þykir það sjálfsagt mál að húkka far hingað og þangað um álfuna. Mynd Leo Reynolds

Þvert á móti er þetta almennt viðurkenndur ferðamáti og í minnst fjórum löndum; Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og Frakklandi, eru sérstakir staðir meðfram þjóðvegum þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir slíkum ferðalöngum.

Þó slíkur ferðamáti henti alls ekki öllum er hann afar ódýr og sé líf í bílstjóranum eða ferðafélaganum getur slíkt orðið bráðskemmtileg upplifun.

En nú þarf ekki einu sinni að standa eins og illa gerður hlutur meðfram hraðbrautum í misjöfnu veðri og vona það besta. Það nægir að skrá sig á síður á borð við BlaBlaCar en þar kemur saman fólk sem er á faraldsfæti, annars vegar á bíl og hins vegar ekki, og ber saman bækur sínar. Þannig hægt að komast víða milli helstu borga og staða án nokkurs eða mikils kostnaðar sem er heillandi á krepputímum og ævintýri í þokkabót. Fín leið til að kynnast nýju fólki í ofanálag.