Í Bandaríkjunum getur munað allt að 60% á verði bílaleigubíls eftir því hvort sá er leigður á flugvellinum strax við komuna eða annars staðar. 

Það margborgar sig að leigja ekki á flugvöllum þegar bílar eru leigðir til lengri tíma. Mynd WH
Það margborgar sig að leigja ekki á flugvöllum þegar bílar eru leigðir til lengri tíma. Mynd WH

Þetta er ágætt að hafa í huga þegar leigja skal bílaleigubíl í Bandaríkjunum og við skulum bara vera hreinskilin með að annað er eiginlega ekki hægt. Það er lítið farið á mörgum bandarískum stöðum fótgangandi og ekki alls staðar eru lestir eða strætisvagnar sem auðvelt er að nota.

Reyndin er sú vestanhafs ólíkt því sem gerist víða  í Evrópu að bílaleigur leggja drjúga þóknun ofan á bílaleigubíla á flugvöllum landsins. Sú þóknun getur við langtímaleigu skipt tugum þúsunda króna.

Til dæmis kostar sólarhringurinn um 14 þúsund krónur þegar leigð er meðalstærð af bifreið sem Enterprise bílaleigan býður á Tacoma flugvelli í Seattle. Sami bíll í sólarhring en leigður á aðalstöð bílaleigunnar í miðborginni kostar um 5.800 krónur. Sé bíllinn tekinn í vikutíma er þarna munur upp á 60 þúsund krónur tæpar. Á Logan flugvelli í Boston kostar meðalbíll á flugvellinum hjá Hertz í sólarhring um átta til tíu þúsund krónur en taki fólk strikið inn í borgina á næstu Hertz leigu fæst sama týpa allt niður í 4.600 krónur á sólarhring. Hér er því umtalsverður sparnaður sé um langtímaleigu að ræða.

Annað sem ágætt er að hafa bak við eyrað vestanhafs er að sérþóknun er á bílum sem leigðir eru til skamms tíma eins og yfir helgi. Með öðrum orðum; það getur verið að það borgi sig að leigja bíl lengur en þú ætlar. Leiguverð gæti beinlínis verið lægra sé bíll tekinn á fimmtudegi og fram á þriðjudag í stað þess að skila honum á sunnudegi. Ekki algilt en sjálfsagt að fletta þessu upp.

Í þriðja og síðasta lagi er eins og annars staðar verulegur munur á leiguverði þekktari bílaleiga og annarra. Í Boston hafa blaðamenn Boston Globe ítrekað fundið að leiga á sams konar bíl hjá minni spámönnum í stað þess að leigja hjá Hertz, Avis, Budget eða öðrum vinsælum er um 30 til 40 prósent lægri. Það kostar auðvitað leit að þeim og þeir aðilar eru jafnan ekki með þjónustuborð á flugvöllum heldur.