Við vorum alltaf að vona að ferðaskrifstofan Gamanferðir byði upp á nokkuð sem aðrar innlendar ferðaskrifstofur virðast ófærar um að bjóða: pakkaferðir á EÐLILEGU verði. En það virðist borin von.

Bad Gastein í Austurríki. Svæðið ekki jafn vinsælt og áður fyrr en hér er sannarlega fallegt og ákjósanlegt skíðaland. Mynd Österreich Turism Portal
Bad Gastein í Austurríki. Svæðið ekki jafn vinsælt og áður fyrr en hér er sannarlega fallegt og ákjósanlegt skíðaland. Mynd Österreich Turism Portal

Við vorum að vona það vegna þess að sú ferðaskrifstofa er beintengd Wow Air gegnum eignatengls og þar sem Wow Air býður flug almennt á mun lægra verði en Icelandair var kannski ástæða til bjartsýni. Það er jú ekkert eðlilegt að pakkaferðir kosti okkur Íslendinga 30 til 50 prósent meira en heilt yfir hjá öðrum vestrænum þjóðum.

Án þess að alhæfa nokkuð þá virðist Gamanferðir hafa fallið í sömu gryfju og aðrir. Allavega ef marka má stikkprufu okkar á einni skíðaferð ferðaskrifstofunnar til Austurríkis í janúar. Pakki sem reynist kosta 45% meira en við getum græjað sjálf heima í stofu.

Um er að ræða vikulangan túr til Bad Gastein í austurrísku Ölpunum. Gist er á fjögurra stjörnu Hotel Weismayr. Flogið með Wow Air til Salzburg og þaðan heim aftur. Túrinn atarna, þar sem ekkert er innifalið hjá Gamanferðum, kostar par 252.424 krónur alls. Þá á eftir að greiða fyrir skíði eða bretti í fluginu, ferðir frá Salzburg til Bad Gastein og til baka, mat og drykk og ekki síst kostnað við skíðapassa sem getur hoppað á tugþúsundum. Þetta er því í raun varla skíðaferð heldur bara ferð til Bad Gastein.

bad
Skjámynd af vef Gamanferða. Ódýrasta ferðin í boði.

Ýmislegt má setja út á upplýsingagjöf Gamanmanna. Þeir segja hótelið þriggja stjörnu þegar það er opinberlega skráð sem fjögurra stjörnu. Hvergi kemur fram hvernig fólk á að koma sér frá Salzburg til Bad Gastein en túr á milli tekur allt að tveimur klukkustundum hvora leið fyrir sig. Þarf að leigja bíl? Er rúta til staðar? Lest?

Það kannski fyrirgefst á upplýsingaöld að upplýsingar vanti. En það er varla hægt að fyrirgefa að það er hægt að græja nákvæmlega sömu ferð ef þú gerir hlutina sjálf/-ur og spara milli 60 og 100 þúsund krónur á skitinni vikulangri skíðaferð!!!

Það gerum við með því að bóka flug til og frá Salzburg á vef Wow Air sömu daga og hér um ræðir. Flugið út og heim fyrir tvo saman með skíði í farangrinum finnst þegar þetta er skrifað á alls 79.392 krónur.

Að því loknu tökum við skrefið á hótelvél Fararheill. Hvers vegna þangað? Jú, sú er þrefaldur heimsmeistari samkvæmt World Travel Awards. Það ætti að segja eitthvað 🙂

Þar finnum við gistingu á Hotel Weismayr 14.-21. janúar og MEÐ morgunverði ólíkt því sem gerist hjá Gamanferðum fyrir heilar 94.065 krónur.

Voilà! Svo leggjum við saman og niðurstaðan er að flugið og hótelið sem fæst á 253 þúsund hjá Gamanferðum kostar 174 þúsund krónur með þessum hætti. Það er aðeins tæplega 80 þúsund króna verðmunur.

Og hvern munar ekki um tæpan hundrað þúsund kall?