Hvor þessara túra er meira heillandi? Þrettán daga túr um Höfðaborg og nágrenni með Úrval Útsýn í febrúar fyrir 975 þúsund krónur á hjón eða par. Eða sextán daga túr með erlendri ferðaskrifstofu í nóvember fyrir 578 þúsund krónur á hjón eða par?

Falleg er hlíðin og gott betur en það í Höfðaborg í Suður Afríku.

Já, þú last þetta rétt. Tvær svona þokkalega svipaðar ferðir á heillandi stað hinum megin á hnettinum og aðeins 400 þúsund króna verðmunur!!!

Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn er að bjóða nokkuð girnilega ferð til Höfðaborgar í Suður Afríku nú í febrúar. Þrettán nátta ferð, ýmislegt innifalið í pakkanum og þar ekki síst að fararstjórar eru tveir Íslendingar sem vel þekkja til í borginni og landinu. Um það má lesa hér.

En sem oft áður tekur verðmiðinn á ferðum Úrval Útsýn of mikið mið af ríkasta eina prósenti Íslands. Því hversu mörg ykkar eiga milljón kall á lausu til að spreða í tæplega tveggja vikna langferð?

Þá er ráð, leiki hugur á að heimsækja Suður Afríku í það minnsta einu sinni á ævinni að minnka kostnaðinn um litlar 400 þúsund krónur en fá í staðinn lengri ferð og nokkuð betri líka. Það gerum við með því að bóka gegnum breska dagblaðið Independent sem býður reglulega safaríkar pakkaferðir frá Bretlandi.

Nokkrar slíkar nú til sölu en lægsta verð finnst þann 22. nóvember þegar sextán daga túrinn fæst fyrir 3798 pund á par eða hjón. Sú upphæð yfirfærð í krónur miðað við gengi dagsins reynist vera 528 þúsund krónur. Ofan á það þarf að bæta kostnaði við flugið til London og heim aftur. Það ætti ekki að kosta mann meira en 25 þúsund fram og aftur með góðum fyrirvara. Heildarkostnaðurinn ætti því að vera kringum 580 þúsund eða svo fyrir tvo saman.

Nánar má fræðast um ferð Independent með virtri ferðaskrifstofu hér en ekki aðeins er ferðin lengri heldur og gist á betri hótelum, mun fleiri staðir skoðaðir og túrinn einskorðast ekki við Höfðaborg því Jóhannesarborg er líka heimsótt. Mínusinn þó að engir eru hér Íslendingar að leiða hópinn. Hvort íslensk fararstjórn er 400 þúsund króna virði verður þú svo að vega og meta.