Áhrifamesta senan í hinni geysivinsælu kvikmynd Titanic frá árinu 1997 var líklega þegar aðalsöguhetjurnar héldu sér fast á þilfari skuts skipsins mikla meðan það smátt og sígandi reis nánast lóðrétt upp á endann og sökk svo hratt niður í hafið. En svoleiðis gerðist það alls ekki.

Það sýnir glæný heimildarmynd sem kvikmyndagerðarmaðurinn James Cameron hefur gert en það var einmitt Cameron sjálfur sem leikstýrði Titanic sem er meðal allra vinsælustu kvikmynda sögunnar.

Cameron hefur í samvinnu við vísindamenn kortlagt nákvæmlega hvernig Titanic sökk í apríl árið 1912 eða fyrir hundrað árum síðan en sökum þess afmælis eru margvíslegar sýningar um sögu skipsins í mörgum söfnum heims þetta árið. Sérstaklega er mikið gert úr í Belfast á Norður Írlandi en þar var skipið byggt að stærstum hluta og það fer ekki framhjá neinum sem þá borg heimsækir þessa dagana.

Í meðfylgjandi myndbandi úr nýrri heimildarmynd sést glöggt að skipið brotnaði í sundur í miðjunni þegar það hóf að sökkva og báðir hlutar þess sukku til botns eins og tundurskeyti.