Það er súrara en ferskur rabbabari með salti að þurfa að borga fimm, sex, sjö, átta og jafvel upp í níu þúsund krónur AÐRA LEIÐ fyrir innritaða töskudruslu hjá Wow Air. Hér er eitt trix sem sparar þér þá upphæð.

Svo virðist vera sem þú komist vel upp með yfirvigt án þess að borga aukalega ef þú ert með „sérstakan farangur.“

Ef svo vill til að þú þarft að ferðast með svokallaðan aukabúnað eins og til dæmis skíðaútbúnað, golftösku, brimbretti, hjólastól eða annan farangur sem ekki flokkast sem einföld ferköntuð taska og þarft að fara gegnum sérfarangurshlið í Leifsstöð, geturðu svo gott sem troðið eins miklu af drasli í þá tösku og framast er unnt og farið langt yfir leyfileg þyngdarmörk án þess að borga svo mikið sem einn eyri aukalega 🙂

Klárlega er ekki allt unnið með því trixinu. Tiltölulega fáir einstaklingar ferðast með farangur sem þarf að fara í odd-sized-baggage eins og það heitir á ensku og er kallað það sama í Leifsstöð til mikillar gleði fyrir unnendur íslenskrar tungu.

Í október síðastliðnum fór einn úr ritstjórn í golfferð til Frakklands. Sá keypti sérheimild fyrir spes farangur, þ.e. golfpoka, en sleppti því að greiða aukalega fyrir annan farangur. Það var þó óhjákvæmilegt að taka með nærur og stöff enda golfferðin alls átta dagar en enginn vill hanga í sömu nærum allan þann tíma.

Viðkomandi tróð því alls kyns aukadrasli í golfpokann, sem samkvæmt reglum má vera 20 kíló alls, sem endaði með því, samkvæmt mælingu áður en farið var út á völl að golfpokinn vóg alls 26,4 kíló. Rúmlega sex kílóum umfram leyfilega þyngd.

Víst sást glitra á taugaveiklaða svitaperlu við innritun á allt of þungum golfpokanum en enginn þar yppti öxlum né setti í brúnir þó augljóslega væri pokinn vel yfir leyfilegri þyngd Wow Air. Eðlilega enda er starfsfólk „odd-sized baggage“ deildarinnar í Leifsstöð ekki að vinna hjá Wow Air né öðrum flugfélögum. Þetta eru starfsmenn Leifsstöðvar og þeim auðvitað slétt drullusama um þyngd á hinu og þessu.

Nóta bene: sex aðrir sem í sömu golfferð voru komust líka upp með að innrita golfpoka sem hver um sig vógu yfir 20 kílóa hámarksþyngd.

Ergo; ef þú þarft á annað borð að flytja eða ferðast með slíkan farangur þá treður þú öllu þínu hafurstaski í þann poka, brosir svo þínu breiðasta við deskið og brosir öllu breiðar í fríhöfninni fimm mínútum síðar. Þú sparaðir þér að minnsta kosti fimm þúsund kall 🙂