Sveltur sitjandi fugl en fljúgandi fær segir máltækið. Þetta má aðeins heimfæra yfir á skemmtisiglingar þessa stundina. Tvö stór skipafélög bjóða ókeypis uppfærslu í káetu með svölum fyrir alla þá sem bóka siglingu á næsta ári með góðum fyrirvara.

Ekkert að þessum dalli og útsýn af svölum líklega frábær. Mynd Jean-Pierre Dalbera
Ekkert að þessum dalli og útsýn af svölum líklega frábær. Mynd Jean-Pierre Dalbera

Samkeppnin í ferðaþjónustu á heimsvísu er eins hörð og hún getur framast verið og einn angi af því er fjöldi fýsilegra tilboða sem streyma nú fram frá hinum og þessum aðilum. Meðal annars í siglingum.

Skipafélagið Princess, sem býður hvorki fleiri né færri en 460 mismunandi siglingar á næsta ári, býður þeim er bóka siglingar frá febrúar á næsta ári fría uppfærslu í káetu með svölum samkvæmt upplýsingum CruiseNews. Það er töluverður sparnaður ef rétt reynist fyrir utan að vera svona helmingi ljúfara.

Princess þó ekki fyrsta skipafélagið sem þetta býður. Svipað tilboð er uppi á dekki hjá skipafélaginu MSC sem einnig býður um og yfir þrjú hundruð ferðir á næsta ári.  Sé haft í huga að káeta með svölum kostar heilt yfir 25 til 50 prósent meira en innriklefi er þetta dálaglegur sparnaður fyrir sjófarendur.

Það þýðir þó ekki neitt að hlaupa til á vefi þessara skipafélaga fyrr en þann 4. til 5. september þegar tilboðsherferðir þeirra beggja hefjast. Bóka verður fyrir lok nóvember svo nægur er tíminn. Heimasíða Princess hér og MSC hér.