Það er ávallt indælt að fara vel út að borða á betri veitingastað á ferðum erlendis. Ekki hvað síst ef yfirkokkurinn eða kokkarnir þykja meðal þeirra fremstu í faginu. Enn betra þó að fá heimboð frá þessum sömu kokkum.

Sex tegundir af ostum, heitt ofnbakað brauð með ólífum og oreganó, ristaðar svínapylsur og svo saltfiskur í rjóma að portúgölskum hætti. Hljómar þetta vel? Mynd EatWith
Sex tegundir af ostum, heitt ofnbakað brauð með ólífum og oreganó, ristaðar svínapylsur og svo saltfiskur í rjóma að portúgölskum hætti. Hljómar þetta vel? Mynd EatWith

Fararheill prófaði athyglisverða nýjung í Lissabon fyrir nokkru. Nýjung sem er að ryðja sér vel til rúms víða erlendis og heillar matgæðinga, alla þá sem vilja prófa eitthvað nýtt og síðast, en ekki síst, þá sem njóta þess að kynnast nýju fólki á einfaldan hátt.

Hér er um að ræða að þekktir og eða vinsælir kokkar í hinum og þessum borgum heimsins eru farnir að bjóða heim til sín í mat um helgar. Þar boðið upp á dýrindis máltíð og undantekningarlítið þrí- eða fjórréttað og drykkir með eftir þörfum. Hafðu þó í huga að hér er enginn matseðill. Þú færð það sem kokkinum dettur í hug að elda hverju sinni.

Boðið er kannski of sterkt til orða tekið því auðvitað þarf að greiða fyrir herlegheitin. Í okkar tilfelli kostaði kvöldverðurinn 3.800 krónur á mann og samanstóð af freyðivíni og ostum svona til að hita upp áður en við fengum heitt og ilmandi ofnbakað brauð með ólífum og oreganó. Í kjölfarið steiktar svínapylsur með eplavíni áður en kom að aðalréttinum: saltfisk með rjóma að portúgölskum hætti. Hvítt eða rautt með eftir þörfum.

Fyrir utan matinn kynntumst við einum af þekktari kokkum í Lissabon, kynntumst að auki átta öðrum einstaklingum sem einnig sátu hér til borðs. Tvær þýskar stúlkur, bandarískt par og fjórir spænskir vinir fyrir utan kokkinn sjálfan Lucas sem starfað hefur um átta ára skeið á þekktum veitingastað í Lissabon og vakið athygli fyrir góðan mat.

Slíkir viðburðir einskorðast ekki við Lissabon. Hægt er að komast í mat hjá kokkum víða um heiminn eins og sjá má á þeirri vefsíðu sem vinsælust þykir í þessu tilliti. Það er EatWith.com og þar að finna fjölda viðburða sem hægt er að skrá sig í eitt eða annað matarboð ellegar í sumum tilfellum óska beinlínis eftir matarboði ef um stærri hóp er að ræða.

Bon appetit 🙂