Ók, við hér búin að nota þetta trix um nokkurra ára skeið en það er tími til kominn að deila með öðrum. Það er leið til að fljúga með allra besta móti þótt þú greiðir aðeins fyrir sardínufarmiða.

Kannski ekki allra en flug er aldrei þægilegra en þegar þú steinsefur allan túrinn. Mætir svo eðalfersk/-ur á áfangastað. Skjáskot

Einhverjir þarna úti kunna að öfunda fólkið sem næstum fær sitt eigið lazyboy sæti á flottustu farrýmum flugfélaganna. Það kostar vitaskuld feitan skilding og þó við flest hér séum sæmilega launuð dugar launatékkinn sjaldnast til að lyfta sér upp á Saga Class nema við afar hátíðleg tækifæri.

En hvað ef þú gætir næstum fengið Saga Class þægindin, að frátöldu ókeypis áfengi og sæti við hliðina á þreyttum blaðrandi ráðherra, á allra lægsta fargjaldinu?

Þar meinum við að þú getir lagt þig í fluginu og sofið á þínu græna eða bláa eyra inn í draumaheim alla leið á áfangastað. Trúðu okkur, það er enginn að stökkva hoppandi glöð/glaður út úr vélinni að flugi loknu annar en sá aðili. Hinir horfa í gaupnir þreyttir og lúnir eða komnir með netta timburmenn af sulli ef ferðinni er heitið til Kanaríeyja.

Hvað er svo trixið?

Auðvitað ekki algilt og þetta gengur aðeins ef rellan er ekki troðfull en trixið er að bíða innritunar eins lengi og kostur er áður en þú beinlínis missir af vélinni. Þú veist hvenær brottför er áætluð, þú veist hvenær innritun hjá manneskju lýkur (yfirleitt 50 mínútum fyrir brottför), og þú veist allvel hversu lengi þú ert að fara gegnum öryggisskoðun. Upplýsingar um þetta síðastnefnda finnast á vefsíðum margra flugvalla og þar á meðal Leifsstöðvar. Þú veist líka að oft er allra best að innrita sig og sína gegnum netinnritun og sleppa alfarið við langar raðir á básum.

Netinnritun á allra síðust stundu er ákjósanleg sökum þess að sum flugfélög, ekki öll þó, bjóða þér við innritun í þeim tölvum að velja sæti um borð. Að því gefnu að þú eða þið séuð raunverulega með allra síðustu farþegum sést á augabragði ef heil sætisröð er enn laus í vélinni. Þú getur auðvitað ekki bókað heila sætisröð en þú getur bókað miðjusætið í vélum þar sem þrjú sæti eru hvoru megin gangs. Það merkir að jafnvel þó einhver sniðugur komi á eftir þér kýs hann eða hún 90 prósent að sitja annars staðar því annars þarf að sitja þétt upp við hlið ókunnugra. Afskaplega fáir kunna að meta það þessa dagana.

Líkurnar eru því afar góðar á að þú sitjir einn eða ein í þinni sætaröð þegar flugþjónarnir loka dyrunum fyrir flugtak. Þá færir þú þig umsvifalaust í sætið við ganginn og sýnir fýlusvip þangað til flugtak hefst. Á því andartaki ertu svo gott sem búin/-nn að tryggja þér heila sætisröð út af fyrir þig. Sætisröð sem er príma staður til að halla höfði og vita næst af sér á áfangastað. Þegar sætisbeltaljósin slokkna leggurðu þig eins og hefur það náðugt og mætir frískari en sumarvindur á áfangastað.

Þetta trix er einnig nothæft þegar engar innritunarvélar eru til staðar. Sama trix, bíða fram á síðustu stundu, og þá beinlínis spyrja starfsmanninn við innritunarborðið hvort einhverjar sætisraðir séu alveg lausar. Biður um sæti þar ef svo er á eins undurfallegan máta og þér er framast unnt. Fáir þreyttir, illa launaðir starfsmenn á flugvöllum sýna ekki lit gegn fallegu brosi og góðlátlegri ósk 🙂

PS: hafa skal þó í huga að þetta getur dregið dilk á eftir sér ef vélin er fulltroðin. Þá gætir þú dagað uppi í miðjusæti milli tveggja fiskverkamanna í árshátíðarferð. Guð hjálpi þér þá.

PS2: Af alls tólf flugferðum ritstjórnar frá nóvembermánuði höfum við neglt heila sætisröð með þessum hætti í 70 prósent tilvika hjá fjórum mismunandi flugfélögum. Þar með talið báðum íslensku flugfélögunum. Saga Class fyrir lítið 🙂